Enski boltinn

Mourinho neitar að viðurkenna tap: Frábært að spila átján leiki í röð án taps

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Manchester United.
Jose Mourinho, stjóri Manchester United. Vísir/EPA
Jose Mourinho var afar ókátur eftir leik Manchester United og Hull í gærkvöldi, þó svo að hans menn hafi tryggt sér sæti í úrslitaleik ensku deildarbikarkeppninnar.

Manchester United tapaði fyrir Hull í gær, 2-1, en komst áfram með 3-2 samanlögðum sigri. United hafði hins vegar unnið sautján leiki í röð fyrir leikinn í gær.

„Við töpuðum ekki,“ sagði Mourinho sem neitaði þar með að viðurkenna úrslit leiksins. „Þetta endaði 1-1. Ég sá bara tvö mörk. Ég sá markið hans Pogba og svo markið þeirra, sem var frábært.“

„Þetta endaði 1-1 og erum við enn ósigraðir að ég held í átján leikjum. Sem er frábær árangur,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.

Sjá einnig: United í úrslit þrátt fyrir tap | Sjáðu mörkin

Mourinho vísaði þar með til vítaspyrnunnar sem dæmd var á Marcos Rojo fyrir meint brot á Harry Maguire. Óhætt er að segja að hann hafi verið óánægður með ákvörðun Jon Moss, dómara leiksins, en eftir leik veitti hann Sky 28 sekúndna sjónvarpsviðtal.

„Ég sá ekki fyrsta markið hjá Hull. Við fögnum því að vera komnir í úrslitaleikinn og ég vil ekki ræða um vítaspyrnuna eða frammistöðuna. Við vorum með góða stjórn á leiknum og eitthvað gerðist sem galopnaði leikinn,“ sagði Mourinho í umræddu viðtali.

„Leikurinn var dauður. Hann var eins og við vildum hafa hann. Ég vildi ekki segja neitt annað, nú er komið nóg. Ég er rólegur, ég hagaði mér á bekknum og var ekki rekinn út af. Engin refsing, þannig að ég segi ekkert meira.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×