Innlent

Boða gjald á nagladekk

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Runólfur Ólafsson Framkvæmdastjóri FÍB
Runólfur Ólafsson Framkvæmdastjóri FÍB
Starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hefur verið falið að móta hugmyndir að fræðslu og hugsanlega sérstöku gjaldi sem lagt yrði á notkun nagladekkja.

Ástæðan er sú að bílum á nagladekkjum hefur fjölgað mikið í Reykjavík nú í vetur miðað við fyrri ár. Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi vonast til að áliti verði skilað innan tveggja mánaða.

Reykjavíkurborg hefur þó ekki lagaheimild til að leggja gjald á nagladekk. Því þyrfti umhverfis- og skipulagssvið að senda innanríkisráðuneytinu tillögu að nýju lagaákvæði í umferðarlögum.

Hlutfall ökutækja í Reykjavík á negldum dekkjum var 46,6 prósent en fyrir þremur árum var hlutfallið 31,9 prósent. Negldum hjólbörðum hefur því fjölgað verulega og ekki verið eins margir síðan veturinn 2006-2007.

Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs kemur fram að beinn kostnaður af sliti gatna vegna nagladekkjanotkunar sé talinn vera 150 til 300 milljónir króna árlega.

Í könnun sem Gallup gerði fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar var spurt hver helsta ástæðan væri fyrir því að svarendur ákváðu að hafa nagladekk fremur en ónegld dekk undir bílnum í vetur. Þar kemur fram að 26,7 prósent segja akstur út á land eða yfir fjallveg vera ástæðuna. Þá nefna 22,6 prósent öryggið sem helstu ástæðuna.

Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að í seinni tíð séu naglar úr léttmálmum. Sé bundið slitlag lagt samkvæmt evrópskum stöðlum þá skemmist það ekki svo mikið af völdum nagladekkja undir hefðbundnum fólksbílum.

Hins vegar geti stórir bílar; flutningabílar og langferðarbílar valdið skemmdum. Þá segir Runólfur mjög hæpið að skattleggja búnað sem eykur á öryggi í umferðinni.

„Það er auðvitað mjög alvarlegt að setja öryggi borgaranna til hliðar á grundvelli óljóss árangurs sem menn telja sig geta náð með því að setja bann eða skatt á hluti sem auka öryggi borgaranna.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×