Innlent

„Viljum hjálpa þeim að hjálpa sjálfum sér“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hópur nemenda í tíunda bekk í Kársnesskóla afhenti Geðhjálp í dag peninga sem þeir hafa safnað undanfarna mánuði til að styrkja forvarnir gegn sjálfskaðandi hegðun. Krakkarnir segja sjálfsskaða vera algengan á meðal ungmenna og vilja leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á málefninu.

Krakkarnir sinntu fjölbreyttri sjálfboðavinnu á vegum Rauða krossins í valáfanga í skólanum. Nokkrir hjálpuðu til á heimilum fyrir eldri borgara eða fólk með geðsjúkdóma, og aðrir tóku til hendinni í verslun Rauða krossins í Mjódd. Auk þess fóru þau öll á námskeið í skyndihjálp.

Lokahnykkurinn í námskeiðinu var svo fjáröflun til styrktar málefni sem krakkarnir völdu sjálf. Tæplega hundrað þúsund krónur söfnuðust og í dag afhenti hópurinn Geðhjálp styrkinn vegna verkefnisins Útmeða, sem leggur í ár áherslu á sjálfskaða unga kvenna.

Ása Hind Ómarsdóttir, ein nemendanna í tíunda bekk Kársnesskóla, segir flesta krakka á hennar aldri þekkja málefnið.

„Þetta er málefni sem okkur nær. Þetta eru stelpur sem eru vinkonur okkar, við þekkjum flest einhverja sem eru að ganga í gegnum þetta. Við viljum  hjálpa þeim að hjálpa sjálfum sér. Þetta er rosa stórt vandamál sem verður að gera eitthvað í,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×