Enski boltinn

Birkir kominn með þekktan aðdáanda áður en hann spilar leik fyrir Aston Villa

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, gekk í gær í raðir enska B-deildarliðsins Aston Villa en þetta sögufræga félag borgaði ríflega 250 milljónir fyrir norðanmanninn.

Aston Villa er úr leik í enska bikarnum og fær því frí um helgina en Birkir spilar væntanlega sínar fyrstu mínútur fyrir nýja liðið á þriðjudaginn þegar Villa mætir Brentford á útivelli.

Sjá einnig:Birkir: Heillandi að vera partur af einhverju stóru

Þrátt fyrir að vera ekki enn búinn að spila leik fyrir Aston Villa er Birkir kominn með mjög þekktan aðdáanda. Það er enginn annar en Stan Collymore, fyrrverandi leikmaður Aston Villa, sem spilaði einnig með Nottingham Forest og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Collymore er sjálfstætt starfandi fjölmiðlamaður í dag sem er með vinsælan þátt um helgar þar sem stuðningsmenn liða geta hringt inn og rifist og skammast fyrir því sem miður fór hjá sínum liðum nú eða hrósað sínum mönnum í hástert. Hann starfaði áður fyrir BBC.

„Birkir Bjarnason. Ég held að ég sé kominn með nýja hetju til að fylgjast með og gleðjast yfir,“ skrifaði Collymore á Twitter-síðu sína eftir að Birkir var kynntur til leiks í gær.

Nú er bara vonandi að Birkir muni ekki valda Collymore vonbrigðum. Það er afar ólíklegt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×