Enski boltinn

Carragher: Coutinho fer alveg eins og Suárez og allir hinir ef Barca eða Real hringja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liverpool er ekki búið að tryggja sér þjónustu Philippe Coutinho næstu fimm árin þrátt fyrir að vera nýbúið að gera við hann samning sem gildir út tímabilið 2020.

Þetta er skoðun Jamie Carragher, fyrrverandi leikmanns Liverpool sem starfar sem sparkspekingur Syy Sports í dag. Hann ræddi málefni brasilíska framherjans og framtíð hans í fótboltanum fyrir leik Liverpool og Southampton í enska deildabikarnum í gærkvöldi.

Carragher segir að Liverpool sé ekki frábrugðið öðrum félögum þegar kemur að því að halda mönnum þegar spænsku risarnir Barcelona og Real Madrid hringja. Þetta vita Liverpool-menn vel því ekki er langt síðan langbesti leikmaður liðsins, Luis Suárez, gerði allt sem í hans valdi stóð til að komast til Barcelona þegar Katalóníufélagið vildi fá hann.

„Það er fullt af leikmönnum í gegnum tíðina sem hafa skrifað undir stóra samninga við Liverpool en síðan farið eitthvað annað,“ sagði Carragher fyrir leikinn í gær, en Coutinho fær rífleg 200.000 pund á viku næstu fimm árin samkvæmt fréttum breskra miðla.

„Ef Coutinho væri ekki ánægður hjá Liverpool myndi hann ekki skrifa undir nýjan samning. Það er víst ekkert riftunarverð en það skiptir engu máli.“

„Liverpool er eins og hvert annað félag í heiminum fyrir utan þessi tvö. Ef Barcelona eða Real Madrid vilja leikmanninn þinn og þau eru tilbúin að borga uppsett verð þá missirðu leikmanninn því 99 allra leikmanna vilja spila fyrir þessi tvö félög,“ sagði Jamie Carragher.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×