Innlent

Millinafnið Mordal í náð en eiginnafnið Hel ekki

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Nöfnin Adrian og Eyva voru samþykkt en ekki Hel og Ónarr.
Nöfnin Adrian og Eyva voru samþykkt en ekki Hel og Ónarr. Vísir/Getty
Mannanafnanefnd hefur samþykkt tvö eiginnöfn og eitt millinafn, en um er að ræða eiginnöfnin Adrian og Eyva, auk millinafnsins Mordal. Nefndin hafnaði hins vegar tveimur eiginnöfnum, Hel og Ónarr, en hún felldi úrskurð í fimm málum þann 6. janúar síðastliðinn.

Þrjú skilyrði þarf til að hægt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Nafnið Adrian, í karlkyni þótti uppfylla þessi skilyrði, en hefð hefur myndast fyrir nafninu og bera 35 karlar á Íslandi nafnið. Þá tekur nafnið Eyva, í kvenkyni íslenskri beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði í lögum um mannanöfn. Mordal, sem millinafn er dregið af íslenskum orðstofni og uppfyllir skilyrði mannanafnanefndar sem millinafn.

Í úrskurði um nafnið Hel, í kvenkyni, segir að nafnið uppfylli ekki viðmið mannanafnalaga um að nafn skuli ekki vera nafnbera til ama og er ítarlega greint frá ástæðum þess í úrskurðinum.

Að sama skapi var nafnið Ónarr, í karlkyni, hafnað þar sem ekki þótti sýnt fram á að nafnið væri ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki hefur skapast hefð fyrir nafninu á Íslandi, þar sem enginn ber, eða hefur borið nafnið samkvæmt þjóðskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×