Innlent

Viktor Örn í þriðja sæti í einni virtustu matreiðslukeppni heims

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rúmlega tvö hundruð Íslendingar fylgdust með Viktori Erni Andréssyni hreppa bronsið í einstaklingskeppni í Bocuse d‘Or, heimsmeistarakeppni einstaklinga í matreiðslu í dag.

Keppninni lauk í dag og hafði Viktor Örn fimm og hálfa klukkustund til þess að matreiða vegan grænmetisrétt og kjötrétt fyrir 24 dómara. Líkt og sjá má hér að neðan stóð Viktor sig með prýði og hreppti að lokum brons sem þykir mikill heiður. Jafnaði hann þar með besta árangur Íslendings á Bocuse d'Or en Hákon Már Örvarsson hreppti einnig þriðja sætið árið 2001.

Fulltrúi Noregs hreppti annað sætið og fulltrúi Bandaríkjanna fór með sigur af hólmi. Mikill fjöldi Íslendinga fylgdist með Viktori að störfum en líkt og áður sagði eru um 200 Íslendingar staddir í Lyon þar sem keppnin fer fram.

Bocuse d‘Or er ein af virtustu matreiðslukeppnum heims og eru þátttakendur meðal fremstu matreiðslumanna sinna landa. Keppnin er því hörð og miklar kröfur gerðar til keppenda.

Keppnin Bocuse d‘Or hefur verið haldin síðan 1987 en fyrsti íslenski keppandinn tók þátt árið 1999. Það var Sturla Birgisson og náði hann fimmta sæti. Síðan þá hafa Íslendingar ávallt verið í níu efstu sætunum. Sturla dæmir fyrir hönd Bocuse d´Or akademíunnar á Íslandi, en það er hópur fyrrum keppenda sem heldur utan um þátttöku Íslands í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×