Viðskipti innlent

Eimskip kaupir tvö ný gámaskip

Skipin munu verða með ísklassa og heildarlengd þeirra verður 180 metrar,
Skipin munu verða með ísklassa og heildarlengd þeirra verður 180 metrar, Mynd/Eimskip
Eimskip hefur undirritað samning við China Shipbuilding Trading Company Limited og Guangzhou Wenchong Shipyard Co. Ltd. um smíði á tveimur nýjum gámaskipum í Kína. Samningsverð hvors skips nemur um 32 milljónum dollara, 3,7 milljörðum íslenskra króna, og gert er ráð fyrir að skipin verði afhent á árinu 2019. Þetta kom fram í tilkynningu Eimskips til Kauphallar Íslands í morgun.

„Samningurinn er með fyrirvara um fjármögnun, en Eimskip vinnur að því að tryggja fjármögnun skipanna. Royal Arctic Line hefur einnig undirritað samning við sömu skipasmíðastöð um smíði á einu sambærilegu skipi," segir í tilkynningunni.

„Það er ánægjulegt að gengið hafi verið frá samningi um smíði nýju skipanna. Þetta er mikilvægt skref í endurnýjun og þróun á skipaflota Eimskips. Við höfum einnig náð samkomulagi við Royal Arctic Line sem byggir á okkar langvarandi tengslum og samstarfi allt frá árinu 1993. Þróun hafnarsvæða í Nuuk, Reykjavík og Þórshöfn munu gefa færi á notkun stærri skipa á markaðssvæði okkar. Við gerum einnig ráð fyrir að samstarfið auki viðskipti á milli þjóðanna á norðurslóðum, sérstaklega þau takmörkuðu viðskipti sem verið hafa á milli Íslands og Grænlands þar sem beinar siglingar og tíðni ferða hefur verið ábótavant,“ segir Gylfi Þór Sigfússon, forstjóri Eimskips. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×