Innlent

Gert að yfirgefa heimili sitt: Bjargað af nágranna eftir að hafa hangið fram af svölum á 3. hæð

Birgir Olgeirsson skrifar
Konan greindi frá líkamsárásinni á lögreglustöðinni við Hringbraut í Keflavík.
Konan greindi frá líkamsárásinni á lögreglustöðinni við Hringbraut í Keflavík. Vísir/GVA
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni gagnvart eiginkonu sinni og brottvísun af heimili þeirra.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna málsins kemur fram að konan hafi mætt á lögreglustöðina við Hringbraut í Keflavík 7. janúar síðastliðinn og greint frá því að hún hefði orðið fyrir líkamsárás af hálfu mannsins fyrr um kvöldið á heimili þeirra.

Hékk fram af svölum á 3. hæð

Aðspurð um atburðarásina hafi hún greint frá því að ágreiningur á milli hennar og mannsins hafi endað með því að hún hljóp út á svalir sem séu við íbúð þeirra á 3. hæð og hafi hún hangið fram af þeim þegar nágrannar í íbúð á hæðinni fyrir neðan gripu um fætur hennar og björguðu henni.

Var hún með sjáanlega áverka á andliti og draghölt að sögn lögreglu og var send til skoðunar hjá lækni.

Daginn eftir var tekin skýrsla aftur af konunni sem greindi frá atburðum á sama hátt. Hún sagði manninn mjög illskeyttan í hennar garð þegar hann drykki áfengi. Maðurinn hafi verið að drekka bjór sem endaði með því að hann kýldi konuna í andlit og höfuð og reif í hár hennar.

Sagði manninn hafa hótað að drepa sig

Sagðist konan vera hrædd við manninn og óttaðist um eigið öryggi. Taldi hún líklegt að maðurinn myndi skaða hana frekar og óttaðist að hann kynni að framkvæma hótun sína um að drepa hana. Hún sagði manninn hafa margoft hótað að drepa sig, einnig með orðum í smáskilaboðum.

Sagðist vera undir stöðugu eftirliti

Sagði hún manninn vera ákaflega stjórnsaman og að hann sendi henni mjög mörg smáskilaboð á hverjum degi og að hún megi ekki eiga karlkynsvini á Facebook. Sagði hún manninn hafa hana algerlega undir eftirliti og að hún sé ekki frjáls. Hún greindi einnig frá því að þau hafi verið gift í langan tíma og eigi saman fjögur uppkomin börn. Sagði hún manninn hafa beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi síðastliðin 10 ár og að hún óttist hann afar mikið.

Neitði sök og sagðist hafa bjargað lífi hennar

Maðurinn neitaði við yfirheyrslu 8. janúar síðastliðinn að hafa beitt konuna ofbeldi. Hann sagði þau hafa rifist en aðallega hafi það verið konan sem var að nöldra í honum og hún hafi farið út á svalir og hótað því að hoppa fram af. Sagðist hann hafa haldið í hendur hennar svo hún myndi ekki falla fram af svölunum og þannig hafi hann bjargað lífi hennar.

Hann sagði það ekki rétt að hann hefði beitt konuna ofbeldi síðastliðin 10 ár, þau hafi rifist annað slagið eins og gengur og gerist. Hann sagði konuna hafa hlotið áverka þegar hún reyndi að hoppa fram af svölunum.

Hann neitaði að gera samning við lögreglu um að hann færi tímabundið af heimilinu svo konan gæti búið örugg á sínu heimili.

Nágranni sagðist hafa bjargað konunni

Nágranni sagði við skýrslutöku að hefði hann ekki gripið inn í og dregið konuna inn á svalir á annarri hæð hefði hún fallið niður þrjár hæðir, enda hafi hún misst gripið þegar nágranninn tók um mitti hennar. Þegar hún var komin inn í íbúðina hafi hún rokið út.

Við skoðun á málaskrá lögreglu mátti finna eitt mál þar sem deilur virtust hafa verið á milli konunnar og mannsins. Það var í desember í fyrra þegar lögregla fór að heimili hjónanna vegna hugsanlegrar yfirstandandi líkamsárásar.

Þar hittu lögreglumenn fyrir konuna sem sat í stiga á milli 2. og 3. hæð hússins og var í sjáanlegum uppnámi. Hún sagði manninn hafa hótað að beita hana líkamlegu ofbeldi fyrr um kvöldið, verið mjög ógnandi og til alls líklegur og því hafi hún flúið fram á stigagang þar sem nágrannakona hafi aumkað sér yfir hana og hringt á lögreglu.

Gisti í geymslu til að forðast ofbeldi

Hún sagði manninn hafa beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi í 10 ár og sé veikur á geði. Hún sagðist margoft hafa flúið íbúð þeirra hjóna vegna ofbeldis og farið niður í kjallara og gist þar í geymslu sem fylgi íbúð þeirra. Hún sagði geymsluna mjög litla og að hún yrði að sofa sitjandi þar inni. Þar sé heldur hvorki hiti né rafmagn.

Þann 11. janúar síðastliðinn fóru lögreglumenn að heimili konunnar og virtist hún vera mjög hrædd við manninn. Hún þorði ekki að afhenda farsíma sinn þar sem hún óttaðist að þá myndi maðurinn drepa hana.

Lögreglustjóri telur að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að maðurinn hafi framið refsivert brot og raskað friði hennar.

Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjórans að maðurinn skuli sæta brottvísun af heimili sínu til sunnudagsins 5. febrúar. Einnig að maðurinn skuli sæta nálgunarbanni til mánudagsins 3. júlí næstkomandi. Má hann ekki koma á eða í námunda við heimili konunnar og ekki á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt var lagt bann við að hann veiti konunni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×