Innlent

Nefndarformennskur allar í skaut stjórnarflokkanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá atkvæðagreiðslu á Alþingi.
Frá atkvæðagreiðslu á Alþingi. Vísir/Anton
Fjórar af átta fastanefndum Alþingis funduðu í dag í fyrsta sinn eftir að þing kom saman og venju samkvæmt kusu þær sér formann. Formennskurnar féllu allar í skaut stjórnarflokkanna.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn formaður fjárlaganefndar. Þingflokksformaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, var kjörin fyrsti varaformaður og Theodóra S. Þorsteinsdóttir frá Bjartri framtíð er annar varaformaður fjárlaganefndar.

Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, var kjörinn formaður velferðarnefndar á fyrsta fundi hennar í dag. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er fyrsti varaformaður og samflokksmaður hans Ólöf Nordal er annar.

Valgerður Gunnarsdóttir, Sjálfstæðismaður úr Norðausturkjördæmi, var kjörinn formaður umhverfisnefndar fyrr í dag. Viðreisnarþingmaðurinn Pawel Bartoszek er fyrsti varaformaður og Bryndís Haraldsdóttir úr Sjálfstæðisflokki er annar varaformaður.

Þá var Óli Björn Kárason, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kjörinn formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Félagar hans úr stjórnarliðinu, Jón Steindór Valdimarsson úr Viðreisn og Vilhjálmur Bjarnason Sjálfstæðisflokki, voru kjörnir varaformenn.

Nefndirnar fjórar sem eftir eru munu funda á morgun. Þær eru allsherjar- og menntamálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanfend og atvinnuveganefnd. Heimildir Vísis herma að þær muni, að óbreyttu, einnig falla í skaut stjórnarflokkanna. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×