Innlent

Lús komin upp í MR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Menntaskólinn í Reykjavík á busadegi.
Menntaskólinn í Reykjavík á busadegi. Vísir/stefán
Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, sendi foreldrum ólögráða nemenda í skólanum tölvupóst í dag þar sem hann tilkynnti að lús hefði fundist í hári nýnema í skólanum. Hann minnir á að lús sé ekki merki um óþrifnað og lætur fylgja leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við.

Lús er afar algengur vandi í leikskólum og grunnskólum landsins og eiga foreldrar að venjast áminningum um að kemba ár barna sinna, sérstaklega í upphafi skólaárs og aftur eftir jólafrí. Vandamálið er ekki jafnalgengt í menntaskólum.

„Ég vil ítreka það sem kemur fram í ráðleggingum að lúsin er alls ekki merki um óþrifnað á nokkurn hátt. Eins og flestum er kunnugt þá gengur því miður lús á hverju ári í grunnskólum landsins og því ekki skrítið að hún geti borist inn í skólann til okkar líka. Einnig vil ég biðja ykkur ef lús finnst að láta alla þá vita sem mögulega gætu hafa smitast,“ segir Yngvi.

Í samtali við Mbl.is segir Yngvi að lúsin skjóti upp kollinum í skólanum annað slagið. Líklegast sé að hún berist á milli systkina og þá til menntaskólanema sem eigi systkini á leikskóla- eða grunnskólaaldri.

Hér má lesa leiðbeiningar um hvernig bregðast skal við lús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×