Enski boltinn

Föstudagstilraun ensku úrvalsdeildarinnar virðist hafa misheppnast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic var í beinni á föstudegi í ágúst en ekkert síðan.
Zlatan Ibrahimovic var í beinni á föstudegi í ágúst en ekkert síðan. vísir/getty
Tilraun Sky Sports að sýna leiki úr ensku úrvalsdeildinni á föstudögum virðist hafa misheppnast eins og það er sett fram í grein á vefsíðu Daily Mail. Aðeins fjórir leikir hafa verið sýndir á föstudögum í vetur og enginn slíkur verður á dagskrá í febrúar og mars.

Síðast var leikur Everton og Hull sýndur 30. desember á föstudegi en heimildamenn Daily Mail innan raða Sky segja að enn sé vilji fyrir því að hafa föstudagsleiki.

Það má mest sýna tíu slíka á hverri leiktíð en það reynist Sky erfitt að vinna í kringum leikjaáætlun liðanna, meðal annars út af Evrópukeppnum og bikar.

Tilraunin hófst með leik Manchester United og Southampton í byrjun leiktíðar en 811.000 manns horfðu á leikinn í Bretlandi. Mesta áhorfið þann ágústmánuðinn fékk leik Arsenal og Liverpool sem var á sunnudegi eða 1,25 milljón.

Mánudagsleikirnir á Sky halda vinsældum sínum og virðast því hafa verið settir í forgang á meðan óvíst er hvort annar föstudagsleikur verður á dagskrá á þessari leiktíð.

Hvorki Sky né enska úrvalsdeildin vildi tjá sig um málið við Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×