Innlent

Ísland fellur um eitt sæti á lista Transparency yfir spillingu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fyrir árið 2016 fær Ísland töluna 78 sem skilar landinu í fjórtánda sæti yfir minnst spilltu lönd heims.
Fyrir árið 2016 fær Ísland töluna 78 sem skilar landinu í fjórtánda sæti yfir minnst spilltu lönd heims. vísir/vilhelm
Ísland er í fjórtánda sæti yfir minnst spilltu ríki jarðar samkvæmt hinni árlegu spillingarvísitölu Transparency International og fellur um eitt sæti á milli ára.

Transparency International taka árlega saman lista yfir spillingu í ríkjum jarðar og nota til þess upplýsingar frá honum ýmsu greiningarfyrirtækjum og gagnaveitum. Vísitalan er á skalanum 0 til hundrað og því hærri sem talan er því minni spilling er sögð í landinu.

Fyrir árið 2016 fær Ísland töluna 78 sem skilar landinu í fjórtánda sæti yfir minnst spilltu lönd heims. Í fyrra fékk Ísland 79 og þrettánda sætið. Þetta þýðir að samkvæmt úttektinni er Ísland spilltasta Norðurlandaþjóðin en nágrannar okkar í skandinavíu raða sér í efstu sæti listans.

Danmörk er minnst spillta land heims og þar á eftir kemur Nýja Sjáland. Síðan Finnland, Svíþjóð og Sviss er í fimmta sæti og Noregur í sjötta. Árið 2006 var Ísland hinsvegar á toppi sama lista og þótti þá minnst spillta land heims.

Hinum megin á kvarðanum er síðan að finna lönd á borð við Sómalíu, Suður Súdan, Norður Kóreu og Sýrland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×