Venus Williams og Roger Federer eru bæði komin áfram í undanúrslit í einliðaleik á opna ástralska meistaramótinu í tennis, fyrsta risamóti ársins.
Williams komst í nótt áfram í undanúrslitin í fyrsta sinn í fjórtán ár með sigri á Anastasia Pavlyuchenkova í tveimur settum, 6-4 og 7-6.
Þetta er í fyrsta sinn síðan 2003 að hún komst áfram í undanúrslit á mótinu en fyrir fjórtán árum síðan fór hún í úrslitin þar sem hún tapaði fyrir systur sinni, Serenu.
Venus mætir Coco Vandeweghe, löndu sinni frá Bandaríkjunum, sem sló Angelique Kerber, ríkjandi meistara og efstu konu heimslistans, úr leik á mótinu. Vandeweghe fór illa með Garbine Muguruza frá Spáni í fjórðungsúrslitunum, 6-4 og 6-0, í nótt.
Serena Williams keppir í fjórðungsúrslitum í nótt og mætir þá Johanna Konta frá Bretlandi.
Federer mætir Wawrinka
Talsvert hefur verið um óvænt úrslit í einliðaleik karla en í morgun komst Roger Federer í undanúrslit með því að vinna Mischa Zverev örugglaga, 6-1, 7-6 og 6-2.
Zverev hafði óvænt náð að slá Andy Murray, efsta mann heimslistans, úr leik á sunnudag.
Federer mætir nú landa sínum frá Sviss, Stan Wawrinka, í undanúrslitum en Federer er fjórfaldur meistari í Ástralíu og hefur sautján sinnum unnið stórmót á ferlinum.
Wawrinka vann þó opna ástralska fyrir þremur árum og hefur bætt við tveimur risamótstitlum síðan þá. Margir telja hann líklegan til afreka í ár.
Sport