Lík Birnu fannst við Selvogsvita um klukkan eitt í dag en það var áhöfnin á TF-LÍF sem rak augun í það á flugi um strandlengjuna á suðvesturhorninu. Skipverjar frá Grænlandi eru sterklega grunaðir um að hafa ráðið henni bana.
Erik Jensen, íbúi í Nuuk, var einn þeirra sem mætti og kveikti á kerti til minningar um Birnu í Nuuk í kvöld.
„Þetta var mjög hjartnæm stund fyrir utan hús ræðismannsins,“ segir Erik í samtali við Vísi en Birnu var minnst víða á Grænlandi í kvöld.
Sjá einnig: Hvetur foreldra til að ræða við börn sín um Birnu
Hann segir erfitt að átta sig á því hve margir mættu en í það minnsta nokkuð hundruð. Afar kalt sé í bænum og mikill og kaldur vindur. En samhugurinn hafi verið mikill og fólk hugsi til Birnu, fjölskyldu hennar og íslensku þjóðarinnar.

Íslendingar minnast Birnu sömuleiðis og óhætt að nota orðið þjóðarsorg í því samhengi enda fátt annað í huga fólks undanfarna viku en leitin að stúlkunni tvítugu. Margir hafa kveikt á kertum í kvöld og kom fólk meðal annars saman við Norræna húsið í kvöld og minntist Birnu.
Þá hafa komið fram tillögur um að þjóðin sameinist á morgun, kaupi kerti til styrktar björgunarsveitunum og kveiki á þeim í skammdeginu annað kvöld og minnist Birnu.
Fram hefur komið að Rauði krossinn er með aðstandendur Birnu í handleiðslu og minna á Hjálparsímann, 1717.
Að neðan má sjá myndir sem Erik tók í Nuuk í kvöld.


