Enski boltinn

Skellur hjá Birki í fyrsta leik en gott kvöld fyrir Jón Daða og Aron Einar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson fagnar hér marki með liðsfélögum sínum í kvöld.
Jón Daði Böðvarsson fagnar hér marki með liðsfélögum sínum í kvöld. Vísir/Getty
Íslendingaliðin Wolves og Cardiff unnu bæði góða sigra í ensku b-deildinni í kvöld en þetta byrjar ekki vel hjá Birki Bjarnasyni í Aston Villa.

Birkir Bjarnason var í byrjunarliðinu í fyrsta leik sínum með Aston Villa en liðið tapaði þá 3-0 á útivelli á móti Brentford.

Birkir fékk ágætis færi í stöðunni 0-0 en mörk frá Lasse Vibe og Nico Yennaris komu Brentford í 2-0 fyrir hálfleik. Lasse Vibe innsiglaði síðan sigurinn með sínu öðru marki eftir tuttugu mínútna leik í seinni hálfleik.

Birkir Bjarnason var tekinn af velli á 75. mínútu en þá var staðan orðin 3-0 fyrir heimamenn.

Jón Daði Böðvarsson spilaði allan leikinn fyrir Úlfanna sem unnu 3-1 útisigur á Barnsley. Jón Daði átti þó ekki beinan þátt í neinu marki Wolves-liðsins. Wolves var manni fleiri frá 42. mínútu leiksins.

David Edwards var maður kvöldsins með tvö mörk og eina stoðsendingu en Kortney Hause skoraði fyrsta marki Úlfann eftir aðeins fimm mínútna leik.  Edwards bætti síðan við mörkum á 36. og 77. mínútu en Barnsley minnkaði muninn á 80. mínútu.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn þegar Cardiff City vann 2-0 sigur á Preston en mörk liðsins skoruðu þeir Peter Whittingham og Kenneth Zohore með tíu mínútna kafla í fyrri hálfleiknum.

Hörður Björgvin Magnússon var ekki með Bristol City sem gerði 2-2 jafntefli á heimavelli á móti Sheffield Wednesday.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×