Enski boltinn

Íslendingalið borgaði metupphæð fyrir írskan landsliðsmann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Brady fagnar marki sínu á móti Frökkum á EM í Frakklandi 2016.
Robbie Brady fagnar marki sínu á móti Frökkum á EM í Frakklandi 2016. Vísir/Getty
Burnley er búið að ganga frá kaupum á írska landsliðsmanninum Robbie Brady og íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er því búinn að fá nýjan liðsfélaga.

Burnley hefur aldrei borgað svo mikið fyrir einn leikmann sem þýðir að félagið lætur Norwich fá meira 10,5 milljónir punda fyrir Brady

Robbie Brady gerir þriggja og hálfs árs samning við Burnley en hann gekk frá samningi sínum fyrr í dag.

Robbie Brady kemur úr knattspyrnuakademíu Manchester United en hann hefur spilað með Norwich frá 2015 og var þar áður hjá Hull City.

Norwich keypti hann frá Hull fyrir sjö milljónir punda og fær því tvöfalt meira fyrir hann nú tveimur árum seinna.

Brady er 25 ára gamall og hefur verið írskur landsliðsmaður frá árinu 2012. Aðalstaða hans er vinstri bakvörður en hann getur bæði spilað inn á miðjunni eða út á kanti.  

Robbie Brady vakti athygli fyrir frammistöðu sína með írska landsliðinu á EM í Frakklandi þar sem hann skoraði tvö mörk.

Hann var með fjögur mörk og fimm stoðsendingar í 23 leikjum með Norwich í ensku b-deildinni á þessu tímabili.

Þetta eru ein athyglisverðustu kaupin á lokadegi félagsskiptagluggans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×