Innlent

ÍSÍ harmar mismunun vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta

Birgir Olgeirsson skrifar
Meisam var meinað að fara til Bandaríkjanna vega tilskipunar Bandaríkjaforseta.
Meisam var meinað að fara til Bandaríkjanna vega tilskipunar Bandaríkjaforseta.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands harmar þá mismunun sem felst í því að banna ríkisborgurum ákveðinna landa að taka þátt í íþróttaviðburðum í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sambandinu eftir að Meisam Rafiei var meinað að ferðast til Bandaríkjanna vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta um ferðabann frá tilteknum ríkjum Mið-Austurlanda og Afríku.

Meisam fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir fimm árum síðan en honum var meinað að fara til Bandaríkjanna sökum þess að hann er fæddur í Íran.

Meisam er landsliðsmaður Íslands í teakwondo og fyrrverandi landsliðsþjálfari. Hann var á leið til Bandaríkjanna til að taka þátt í opna bandaríska taekwondo-mótinu í Las Vegas.

Bandaríska sendiráðið sagði í skriflegu svari til RÚV að ákvörðuninni verði ekki breytt. Meisam fái ekki að ferðast til Bandaríkjanna jafnvel þótt hann eigi íslenskt vegabréf.

Í tilkynningu frá ÍSÍ kemur fram að ólympíuhreyfingin hafi lagt áherslu á að öllum gefist kostur á að taka þátt í íþróttakeppnum óháð meðal annars trúarbrögðum, upprunalandi og stjórnarfari.

„Alþjóðlegar íþróttakeppnir hafa reynst öflug leið til þess að efla skilning og virðingu á milli ólíkra menningarheima og skoðana. Aðgerðir af því tagi sem nú er beitt í Bandaríkjunum vinna beinlínis gegn því að slíkur árangur náist,“ segir í tilkynningunni.

„Ólympíunefnd Bandaríkjanna hefur lýst því yfir að hún vinni að því að tryggja sem fyrst aðgang alls íþróttafólks og dómara til keppni í Bandaríkjunum þrátt fyrir tímabundna lokun Bandaríkjanna gagnvart ákveðnum ríkjum. ÍSÍ fagnar þessu framtaki Ólympíunefndarinnar. Þá hefur ÍSÍ upplýst Ólympíunefnd Bandaríkjanna um frávísun Meisam Rafiei, keppanda í taekwondo, og óskað eftir upplýsingum um það hvernig mál eru að þróast í Bandaríkjunum.“


Tengdar fréttir

Íslensk stjórnvöld mótmæla tilskipun Trump

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur komið á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×