Enski boltinn

Jóhann Berg lagði upp flottasta mark bikarsins | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, átti lykilsendingu í fyrra marki Burnley og stoðsendinguna í því síðara er liðið lagði Bristol City, 2-0, í enska bikarnum um helgina.

Fyrra markið skoraði Sam Vokes á 45. mínútu eftir stoðsendingu frá Steven Defour, dýrasta leikmanni Burnley frá upphafi. Jóhann Berg hjálpaði til að vinna boltann með góðri pressu og renndi honum svo snyrtilega á Defour sem lagði upp markið. Lykilsending skráð á Jóa Berg.

Seinna markið skoraði Defour svo sjálfur en það var flottasta mark 32 liða úrslitanna og mögulega bikarsins til þessa. Jóhann Berg renndi boltanum frá hægri til vinstri á Belgann sem vippaði honum glæsilega yfir Fabian Giefer í marki B-deildarliðsins.

Hörður Björgvin Magnússon, sem vanalega byrjar alla leiki hjá Bristol, sat allan tímann á varamannabekk liðsins í þessum leik en Jóhann Berg spilaði 90 mínútu.

Burnley mætir utandeildarliði Linconln City í 16 liða úrslitum og á því vægast sagt góðan möguleika á því að komast í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×