Innlent

Sýslumaður braut jafnréttislög með því að ráða þrjár konur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sumarstörfin voru auglýst á síðasta ári.
Sumarstörfin voru auglýst á síðasta ári. Vísir/Stefán
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerðist brotlegur við jafnréttislög þegar hann réði þrjár konur í sumarstörf hjá embættinu á síðasta ári og gekk framhjá karli. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á aðrar ástæður en að kyn umsækjenda hafi ráðið úrslit um ráðningu.

Í apríl 2015 voru auglýst þrjú sumarstörf hjá sýslumanni sem í fólust almenn afgreiðslu- og skrifstofustörf ásamt aðstoð við lögfræðileg álitaefni. Einnig varð gerð krafa um að viðkomandi væru laganemar.

Alls bárust 54 umsóknir og voru sjö umsækjendur kallaðir í viðtöl, tveir karlar og fimm konur. Þrjár konur voru ráðnar til starfa og kærði einn umsækjenda, karlmaður sem ekki var boðið til viðtals, ráðningarnar til Kærunefndar jafnréttismála. Taldi hann að hann væri að minnsta kosti jafn hæfur konunum sem boðin voru störfin.

Í rökstuðningi embættisins kom fram að konurnar sem ráðnar voru hefðu tilskylda reynslu auk þess sem að þær hafi „komið vel fyrir í viðtali, verið áhugasamar um störfin og fengið góð meðmæli.“

Benti maðurinn á að með tilliti til menntunarstigs og reynslu af þjónustustörfum væri hann að minnsta kosti jafn hæfur og þær konur sem ráðnar voru, enda hefði hann unnið við þjónustustörf í 21 mánuð, samanborið við árs reynslu við sambærileg störf hjá þeirri konu sem hafði stysta reynslu við slík störf.

Í niðurstöðu kærunefndar segir að samanburður þessi hefði mátt gefa embættinu tilefni til þess að kanna nánar hæfni mannsins með því að boða hann til viðtals og að röksemdir embættisins um að maðurinn hefði ekki sýnt áhuga á að starfa við embættið ættu ekki rétt á sér.

Telur kærunefnd því að embættið hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn umsækjenda hafi ráðið niðurstöðu kærða við ákvörðun um ráðningu í umrædd sumarstörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×