Enski boltinn

Terry: Ég vona að ég spili ekki aftur á tímabilinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Terry vill ekki spila meira.
John Terry vill ekki spila meira. vísir/getty
John Terry, miðvörður og fyrirliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, vonast til að hann spili ekki fleiri leiki fyrir liðið á þessari leiktíð því það þýðir að Englandsmeistaratitillinn endar væntanlega á Stamford Bridge. Hann kemst ekki í liðið því það vinnur næstum alla leiki.

Terry er rótfastur við varamannabekkinn hjá Chelsea sem er með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar undir stjórn Antonio Conte. Liðið mætir Liverpool í kvöld í stórleik en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Miðvörðurinn byrjaði þrjá leiki í ágúst í fyrra og einn september en síðan þá hefur John Terry ekki komist í byrjunarlið Chelsea. David Luis og Gary Cahill eru á undan honum í goggunarröðinni.

„Það sem skiptir máli er að liðið er á flugi og að spila frábærlega. Stundum er ekkert sem maður getur gert sem leikmaður. Ég byrjaði fyrstu fjóra leiki tímabilsins en svo meiðist ég og við töpum á móti Liverpool. Þá var stjórinn að spyrja mig hvenær ég yrði klár,“ segir Terry í viðtali við Daily Mirror.

„Eftir það vinnum við þrettán leiki í röð og þá kemst maður ekkert aftur í liðið. Þetta er eitthvað sem maður þarf að sætta sig við sem leikmaður.“

„Conte er búinn að vera heiðarlegur við mig frá fyrsta degi. Hann segir bara að ég kemst ekki í liðið á meðan það er að spila svona vel. Ég meina það samt og segi heiðarlega að ég vona að ég spili ekki aftur á þessari leiktíð því það þýðir að liðið heldur áfram að vinna leiki,“ segir John Terry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×