Enski boltinn

Leikmenn West Ham vildu losna við Payet sem var búinn að einangra sig frá liðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dmitri Payet komst aftur til Frakklands.
Dmitri Payet komst aftur til Frakklands. vísir/getty
Dmitri Payet fékk vilja sínum framgengt og er kominn aftur til Marseille frá West Ham eins og greint var frá í gær en franski framherjinn kostaði Marseille 25 milljónir punda.

West Ham vildi ekki selja Payet en hann var búinn að vera í verkfalli síðustu vikur þar sem hann neitaði að spila fyrir Lundúnarliðið. Hann þráði að komast aftur til Frakklands en var látinn æfa með U23 ára liðinu á meðan vitleysunni stóð.

Sjá einnig:Dimitri Payet þurfti að endurgreiða West Ham 73 milljónir

Eigendum West Ham og knattspyrnustjóra félagsins, Slaven Bilic, langaði mikið að gera fordæmi úr franska landsliðsmanninum og hafa hann í frystikistunni á launaskrá þrátt fyrir að hann var launahæsti leikmaður liðsins.

Það tók fram í yfirlýsingu að það þurfti ekki að selja hann og var mjög óánægt með framkomu hans og virðingarleysi. Aftur á móti voru það leikmennirnir sem vildu losna við hann og þá varð að gera eitthvað.

„Eins mikið og við vildum ekki losna við hann var ekki hægt að fara upp á móti liðinu og því sem leikmennirnir vildu,“ segir David Sullivan, annar eigenda West Ham, við BBC.

„Hann talaði ekki við neinn í liðinu. Hann sat einn úti í horni þegar liðið borðaði saman og hann var búinn að einagra sig. Áður en þetta allt saman fór af stað var hann hamingjusamur og tók alltaf í höndina á öllum fyrir alla leiki.“

„Annað hvort var þetta taktík hjá honum eða eitthvað breyttist. Liðið vildi losna við hann og stjórinn þurfti að vera sömu skoðunnar eftir að hika í fyrstu. Við teljum að þetta hafi þjappað liðinu enn frekar saman,“ segir David Sullivan.


Tengdar fréttir

Dimitri Payet þurfti að endurgreiða West Ham 73 milljónir

Samband Dimitri Payet og yfirmanna hans hjá West Ham varð á endanum eins slæmt og það getur orðið. Hann var hetja liðsins og elskaður af öllum stuðningsmönnum eftir ótrúlega framgöngu í janúarmánuði er Payet nú hataður eins og pestin meðal West Ham fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×