Erlent

Hundruð þúsunda mótmæltu sjálfstæði Katalóníu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lögreglan í Barcelona telur að 350 þúsund manns hafi mótmælt á götum út í dag en skipuleggjendur mótmælendanna telja að talan sé nær 950 þúsund.
Lögreglan í Barcelona telur að 350 þúsund manns hafi mótmælt á götum út í dag en skipuleggjendur mótmælendanna telja að talan sé nær 950 þúsund. Vísir/EPA
Minnst 350 þúsund manns komu saman í Barcelona í dag til að mótmæla því að Katalónía hljóti sjálfstæði frá Spáni. Mótmælendur veifuðu spænskum og katalónskum fánum og borðum með slagorðunum „Sameinuð erum við sterkari“ og „Katalónía er Spánn.“

Svipuð mótmæli voru haldin víða á Spáni í gær en mótmælin í dag voru þau stærstu hingað til. Búist er við því að yfirvöld í Katalóníu muni lýsa yfir sjálfstæði í næstu viku.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, útilokar ekki að beita ákvæðum stjórnarskrár landsins og svipta Katalóna sjálfræði ef stjórnmálaleiðtogar þeirra lýsa yfir sjálfstæði héraðsins.

Katalóníubúar kusu um sjálfstæði um síðustu helgi og sögðu 90% kjósenda já við sjálfstæði héraðsins. Spænsk yfirvöld segja að kosningin hafi verið ólögmæt og þá fjarlægði spænska lögreglan kjörkassa af nokkrum kjörstöðum.

Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í kjölfar kosninganna og særðust tæplega 900 manns. Lögreglan í Barcelona telur að 350 þúsund manns hafi mótmælt á götum út í dag en skipuleggjendur mótmælendanna telja að talan sé nær 950 þúsund.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×