Innlent

Sigurjón Árnason krefst endurupptöku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sendi kröfu fyrir hönd Sigurjóns í september síðastliðnum. Hann segir málið hafa undið upp á sig frá þeim tíma.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sendi kröfu fyrir hönd Sigurjóns í september síðastliðnum. Hann segir málið hafa undið upp á sig frá þeim tíma. vísir/gva
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefur krafist þess að tvö dómsmál á hendur honum verði tekin til meðferðar að nýju fyrir dómi.

Sigurjón var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í október 2015 fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun vegna Ímon-málsins svokallaða. Hæstiréttur dæmdi hann svo aftur í átján mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í byrjun febrúar á síðasta ári.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, segist hafa sent erindi til endurupptökunefndar í september. „Ég er að vinna í því og sendi inn endurupptökubeiðni í september. Síðan hef ég verið að bæta við hana eftir því sem maður hefur fengið meira af gögnum. En það vill svo til að nefndin er eiginlega óstarfhæf af því að það reyndust einhverjir nefndarmenn vanhæfir og Alþingi þarf að kjósa nýja,“ segir Sigurður. Þar vísar Sigurður til Björns L. Bergssonar, formanns nefndarinnar, og nefndarmannsins Þórdísar Ingadóttur.

„Við byggjum nú bara fyrst og fremst á þeim fréttum sem hafa komið um hlutabréfaeign dómara í blöðunum. Svo hefur verið að koma í ljós að þeir hafa verið að staðfesta að þeir hafi tapað fjármunum í bankahruninu, sumir dómarar,“ segir Sigurður.

Björn L. Bergsson segir að ekki hafi borist neinar endurupptökubeiðnir sem byggja á vanhæfi dómara eftir að fréttirnar af fjárhagslegum hagsmunum hæstaréttardómara voru sagðar í byrjun desember. Krafa Sigurjóns var lögð fram í september. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×