Viðskipti innlent

Hagnaður Virðingar meira en fjórfaldaðist á árinu 2016

Hörður Ægisson skrifar
Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, segir afkomu síðasta árs hafa verið þá bestu í sögu félagsins.
Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, segir afkomu síðasta árs hafa verið þá bestu í sögu félagsins.
Hagnaður Virðingar á árinu 2016 nam liðlega 460 milljónum króna borið saman við 104 milljónir árið áður. Þá jukust hreinar tekjur verðbréfafyrirtækisins um 43 prósent á milli ára og voru samtals 1.275 milljónir króna í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en þar segir að afkoma síðasta árs hafi verið sú besta í sögu Virðingar.

„Rekstur Virðingar gekk vel á öllum sviðum á síðasta ári sem er okkar besta frá upphafi. Heildarfjárhæð eigna í stýringu nam um 100 milljörðum króna í lok árs. Mikill vöxtur var á öllum sviðum félagsins og útlitið er bjart,“ er haft eftir Hannesi Frímanni Hrólfssyni, forstjóra Virðingar í tilkynningu.

Fyrirtækjaráðgjöf félagsins hafði meðal annars umsjón með söluferli Ölgerðarinnar, Lyfju, Leigufélagsins Kletts og fasteignafélagsins BK eigna á árinu 2016. Í tilkynningu Virðingar segir jafnframt að framtakssjóðir í rekstri félagsins hafi skilað góðri afkomu og eins var ávöxtun eigna í stýringu góð á árinu.

„Þá hefur Virðing fengið heimild breska fjármálaeftirlitsins til að fara með virkan eignarhlut í bresku verðbréfafyrirtæki sem mun hljóta nafnið Virðing Securities. Starfsemi þess félags mun hefjast formlega nú í febrúar. Það blasa því við fjölmörg tækifæri til áframhaldandi vaxtar bæði hérlendis og erlendis,“ segir Hannes Frímann.

Virðing og Kvika banka undirrituðu viljayfirlýsingu undir lok síðasta árs um sameiningu félaganna og standa nú yfir áreiðanleikannanir í tengslum við það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×