Innlent

Áttatíu milljónir króna í sanngirnisbætur vegna Kópavogshælis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sláandi skýrsla um aðbúnað og daglegt líf á Kópavogshæli var kynnt í gær.
Sláandi skýrsla um aðbúnað og daglegt líf á Kópavogshæli var kynnt í gær. vísir/gva
Alls eru 80 milljónir króna á fjárlögum þessa árs eyrnamerktar til þess að greiða út sanngirnisbætur til þeirra sem vistaðir voru á Kópavogshæli en sláandi skýrsla um aðbúnað og daglegt líf á hælinu, sem starfrækt var frá árinu 1952 til 1993, var kynnt í gær.

Skýrslan var unnin af vistheimilanefnd en hún starfar samkvæmt lögum frá árinu 2007 þar sem kveðið var á um að rannsaka skyldi aðbúnað og daglegt líf á vist-og meðferðarheimilum fyrir börn sem starfrækt voru hér á landi á síðustu öld.

Auk Kópavogshælis var um að ræða Breiðavík, Vistheimilið Kumbaravog, Heyrnleysingjaskólann, Stúlknaheimilið Bjarg, Vistheimilið Reykjahlíð, Heimavistarskólann Jaðar, Upptökuheimili ríkisins, Unglingaheimili ríkisins og Vistheimilið Silungapoll.  

Í dag eru alls um 100 manns á lífi sem vistuð voru á Kópavogshæli sem gætu átt rétt á bótum á grundvelli laga um sanngirnisbætur sem sett voru árið 2010. Þau tóku til heimilanna níu sem nefnd eru hér að ofan og þá var þeim síðar breytt þannig að þau fyrrverandi nemendur Landakotsskóla eigi líka rétt á bótum.

Ríkið hefur alls greitt út rúma tvo milljarða í sanngirnisbætur til einstaklinga sem vistaðir voru sem börn á þessum heimilum og sættu þar illri meðferð og ofbeldi. Hámarksbótagreiðsla til einstaklings er í dag rúmar sjö milljónir króna en bæturnar eru skattfrjálsar og skerða ekki aðrar greiðslur, til að mynda úr lífeyrissjóðum eða almannatryggingum.

Eins og áður segir er gert ráð fyrir að 80 milljónir fari á þessu ári til þeirra sem vistaðir voru á Kópavogshæli. Þá eru 50 milljónir eyrnamerktar þeim sem voru í Heyrnleysingjaskólanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×