Innlent

Gerir athugasemdir við ummæli landlæknis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tómas Guðbjartsson er yfirlæknir á Landspítalanum og prófssor við læknadeild Háskóla Íslands.
Tómas Guðbjartsson er yfirlæknir á Landspítalanum og prófssor við læknadeild Háskóla Íslands.
Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítalanum og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, gerir athugasemdir við ummæli Birgis Jakobssonar, landlæknis, sem birtust í frétt á heimasíðu embættisins í gær.

Þar sagði Birgir Tómas fara með fleipur í fjölmiðlum þegar hann spurði í fréttum Stöðvar 2 á laugardagskvöld hvar eftirlitsaðilar á borð við Vinnueftirlitið og Landlæknisembættið væru en rætt var við Tómas í tengslum við plássleysi á Landspítalanum.  

Landlæknir sagði í gær að það væri full ástæða sé til að koma á framfæri leiðréttingu varðandi það atriði er Tómas nefndi varðandi eftirlitsaðila „enda er það alvarlegt þegar yfirlækni og prófessor á háskólasjúkrahúsi landsmanna skortir þekkingu á hlutverkaskipan í heilbrigðisþjónustunni og fer með fleipur um þetta í fjölmiðlum.“

Sagði Birgir að það væri hlutverk þess sem veitti heilbrigðisþjónustu að bera ábyrgð á því að hún stæðist kröfur um gæði og öryggi sjúklinga.

Í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld segir Tómas að hann vilji leiðrétta þann misskilning sem hann segir að fram komi í tilkynningu landlæknis:

„Ég sagði aldrei að landlæknir beri ábyrgð á öryggi sjúklinga á Landspítala heldur nefndi ég gæði þjónustunnar. Landlæknir er eins og Vinnueftirlitið og Brunaeftirlitið eftirlitsaðili og ber ábyrgð sem slíkur, enda þótt þeir sem veita þjónustuna verði að sjá til þess að öryggi sjúklinga sé tryggt. Ég talaði heldur hvergi um að landlæknir ætti að beita dagsektum en benti á að þeim væri beitt í Svíþjóð. Ég var reyndar ekki að tala um embættið í því sambandi heldur aðeins um verklag enda væri slíku eftirliti betur komið hjá öðrum aðilum, líkt og tíðkast í Svíþjóð.

Af þessu hlýt ég að draga þá ályktun að landlæknir hafi ekki hlustað nægilega vel á viðtalið við mig og hafi verið full yfirlýsingaglaður,“ segir Tómas á Facebook-síðu sinni þar sem hann deilir einnig frétt Stöðvar 2 frá því á laugardagskvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×