Innlent

Sláandi lýsingar á daglegu lífi á Kópavogshæli: „Þarna kynntist ég meiri mannlegri niðurlægingu en mig hafði órað fyrir“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Þorbjörn Þórðarson skrifa
Nefnd sem forsætisráðherra skipaði á grundvelli laga um vistheimili skilaði í dag skýrslu sinni um Kópavogshæli 1952-1993. Lýsingar á aðbúnaði og daglegu lífi á hælinu eru sláandi en í skýrslunni er meðal annars vitnað í fyrrverandi starfsmenn, vistmenn og aðstandendur þeirra.

Kópavogshæli var stofnun sem starfaði á grundvelli laga um fávitahæli frá 1936 en þau lög voru sett áður en það þótti óviðeigandi og ósiðlegt í samfélaginu að kalla fólk sem glímdi við andlega fötlun fávita. Á þessu hæli dvöldu börn og fullorðnir en talið er að 175 börn yngri en 18 ára hafi verið vistuð á Kópavogshæli þau rúmlega 40 ár sem hælið var rekið.

Nefndin telur að forstöðumaður Kópavogshælis á árunum 1952-1956 hafi vanrækt stjórnunar og eftirlitsskyldur sínar með því að gæta þess ekki að vistun barna á Kópavogshæli  hefðu fullnægjandi lagastoð og að aðbúnaður barnanna samræmdist gildandi lögum á þeim tíma.

Frá Kópavogshæli.vísir/gva
Eftirlitsaðilar brugðust

„Það er niðurstaða okkar að eftirlitsaðilar hafi brugðist. Bæði ytra eftirlitið, ráðuneytið og ýmsir aðrir og líka þetta innra eftirlit. Það hvíldu skyldur á æðstu stjórnendum til að tryggja að starfsemin væri í ákveðnu horfi og við teljum að þeir hafi brugðist í því,“ segir Hrefna Friðriksdóttir prófessor í lögfræði við HÍ og formaður nefndar um Kópavogshæli.

Kópavogshæli var alltaf undirfjármagnað og mönnun starfsmanna endurspeglaði aldrei fjölda vistmanna. Hrefna segir að æðstu stjórnendum Kópavogshælis hljóti að hafa verið ljóst að ofbeldi viðgekkst á hælinu. Unnar voru margar skýrslur um hælið á sínum tíma en aldrei var komið til móts við gagnrýni sem þar kom fram. Hrefna segir að þrátt fyrir allt þetta hafi aðstæður á Kópavogshæli að mörgu leyti verið sambærilegar þeim sem viðgengust á svipuðum hælum á hinum Norðurlöndunum á þessum tíma. Ýmislegt bendi hins vegar til þess að Íslendingar hafi verið lengur að tileinka sér nýja þekkingu á málaflokknum og innleiða breytingar í samræmi við þær.

Miklir fordómar og mismunun í garð fatlaðs fólks

Skýrslan leiðir í ljós að börnin sættu ofbeldi, forstöðumenn brugðust eftirlitsskyldum sínum, fylgdu ekki lágmarkskröfum laga og heilbrigðisráðuneytið og landlæknir brugðust eftirlittskyldum sínum. Er þessi skýrsla vitnisburður þess að andlega fatlaðir voru annars flokks manneskjur í menningarsamfélagi Íslands þess tíma?

„Því miður er ýmislegt sem bendir til þess. Þegar farið er í gegnum hugmyndafræði og samfélagsstrauma þá þykir það standa upp úr rannsóknum og allir sérfræðingar á einu máli um að það hafi ríkt miklir fordómar og mismunun af mörgu tagi í garð fatlaðs fólks. Þau viðhorf hafa örugglega litað þetta að einhverju tagi hversu illa gekk að byggja upp og viðhalda gæðum í þessari þjónustu,“ segir Hrefna.

Yfirlitsmynd sem sýnir Kópavogshælivísir/gva
Mikið um magasjúkdóma og tennur dregnar úr fólki

Þrátt fyrir litlar samtímaheimildir frá fyrstu áratugum hælisins fæst engu að síður í skýrslunni innsýn í starfsemina á þessum árum þar sem vitnað er í grein tveggja þroskaþjálfa frá árinu 2011 þar sem þeir rifja um lífið á Kópavogshæli á þessum tíma.



Í greininni segir að af lestri dagbóka sjáist að fyrirmyndin að starfsemi hælisins sé sótt til sjúkrahúsa. Vísað er til allra sem dvelja á hælinu sem sjúklinga sem allir eru mældir daglega og hitastig skráð af nákvæmni í dagbækurnar.

„Það vekur athygli þegar þessum dagbókum er flett að mjög mikið er um magasjúkdóma og nánast daglega talað um að þessi eða hinn sjúklingurinn sé slæmur í maga, ýmist með uppköst eða niðurgang. Nokkrum sinnum er getið um heimsóknir tannlæknis og er hlutverk hans að draga tennur úr fólki. Aldrei er talað um tannpínu eða tannviðgerðir …“ segir í greininni en textinn er tekinn upp úr skýrslu vistheimilanefndar.

Þá rifjar annar þroskaþjálfinn, sem vann sem starfsstúlka á Kópvogshæli árið 1967, upp minningar frá einum degi þar. Þar lýsir hún aðbúnaði á hælinu og daglegri starfsemi og verður ekki annað sagt en að lýsingarnar séu sláandi:

„Í stærstu herbergjunum voru sjö saman en þeir sem töldust erfiðastir voru á sellum ... Flestir sváfu í náttfötum, þar af margir í náttgöllum sem voru gjarnan hnepptir eða reimaðir aftan á (þeir sem rifu sig út fötunum á nóttunni). Flestir voru hvattir til að fara beint á salernið sem var við annan enda svefngangsins. Það var eitt stórt herbergi og tvær salernisskálar í einu horninu, hlið við hlið. Ekkert hlífði á milli svo sem hengi, hvað þá veggir, fólk varð bara að setjast fyrir allra augum og gera það sem þurfti. Oftast var löng biðröð og þeir sem voru ákveðnastir ýttu hinum frá til að komast að. Jafnvel þótt fólk væri sest var því bara ýtt af. Enginn klósettpappír var notaður ef fólk gat ekki notað hann sjálft. Enginn þvoði sér um hendur eftir klósettferð. Lýsoli var hellt í klósettin í miklu magni sí og æ þar sem starfsmenn voru hræddir við sýkingar. Starfsmenn höfðu klósett þar sem hægt var að loka og læsa,“ segir í skýrslunni.

Frá jólahaldi á hælinu.vísir/gva
Einstaka vistmaður klæddur í „spennitreyju“

Ekkert einkarými var heldur til þess að baða sig en tvö baðkör voru á deildinni þar sem 15-20 manns voru vistaðir í einu. Ekkert hengi var til staðar eða neitt slíkt svo hægt væri að baða sig út af fyrir sig. Þá þekktust tannburstar ekki nema einn eða tveir fyrir alla á deildinni. Það var þó ekki haft mikið fyrir því að bursta tennurnar og ef þær skemmdust voru þær dregnar úr. Einnig voru tennur dregnar úr þeim sem bitu frá sér, „þá var allt hreinsað“, eins og það er orðað í skýrslunni.

„Þegar fólk hafði lokið sér af á klósettinu var það klætt. Margir klæddu sig sjálfir og sumir gátu aðstoðað aðra við klæðnað ásamt starfsfólki. Vistmenn áttu ekki fötin sín sjálfir heldur var fötum og skóm sem stofnuninni höfðu verið gefin (föt sem fólk vildi ekki ganga í sjálft) útdeilt á deildirnar af saumastofunni, merkt deildinni og þeir síðan klæddir í flíkina sem hún þótti passa best á. Margir voru í sérsaumuðum göllum sem voru reimaðir að aftan svo að viðkomandi gat ekki klætt sig úr sjálfur. Þetta var aðallega fólk sem klæddi sig gjarnan úr fötunum. Einstaka vistmaður var klæddur í „spennitreyju“ undir gallanum ... nokkurs konar kot þar sem saumað var fyrir endann á ermunum og bönd saumuð þar á. Síðan voru handleggirnir lagðir í kross og bundið aftur á bak. Þannig gat viðkomandi ekki notað hendurnar, hvorki til að verjast falli né öðru því sem upp gæti komið.“

„Kópavogshæli var skelfilegur staður“

Í skýrslunni er vitnað í orð fleiri fyrrverandi starfsfólks og segir að fleiri hafi lýst því sem áfalli að koma inn á Kópavogshæli á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

„... ég var allsendis óviðbúin því sem mætti mér. Þarna kynntist ég meiri mannlegri

niðurlægingu en mig hafði órað fyrir og ég hafði nokkurn tíma kynnst ... það sem ég sá var mér einfaldlega um megn“

„... Kópavogshæli var skelfilegur staður“

„... stórmerkilegt að sumt af því fólki, sem þar bjó árum og jafnvel áratugum saman, skyldi að lokum komast út [og vera] fært um að lifa nokkurn veginn eðlilegu lífi í sátt við umhverfi sitt þrátt fyrir erfitt og niðurlægjandi líf á hælinu“

„... ég hef oft verið reið út í sjálfa mig, hvernig gat maður tekið þessu án þess að rísa upp og mótmæla [en] ég var ung og það tók mig langan tíma að átta mig á því að allt skipulag á hælinu stríddi gegn því sem mönnum er bjóðandi. Það tekur ennþá á að hugsa um allt það fólk sem ráfaði þarna um eins og í biðsal.“



Ítarlega skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli má nálgast hér
.


Tengdar fréttir

Vistmenn á Kópavogshæli máttu þola ofbeldi og vanlíðan

Börn sem vistuð voru á fullorðinsdeildum Kópavogshælis á árunum 1952-1993 þurftu í verulegum mæli að þola líkamlegt og andlegt ofbeldi og vanrækslu af ýmsu tagi, að því marki að lífi þeirra og heilsu hafi verið stofnað í alvarlega hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×