„Lagið er gleðisprengja sem við Þórunn Erna Clausen unnum saman ásamt frábærum breskum tónlistarmönnum og upptökustjóra, en þeir eru meðal annars að vinna með Sergei Lazarev sem keppti í Eurovision fyrir hönd Rússlands í fyrra. Textinn við lagið fjallar um að finna jákvæðnina í lífinu og hvernig ástin getur hjálpað manni upp úr erfiðleikum og sorg, og um það að vera góður við aðra og lifa í núinu,“ segir Aron.
Þórunn Erna segir að textinn hafi verið saminn sérstaklega fyrir Aron sem kemur til með að keppa í seinni undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins þann 4. mars í Háskólabíói.
„Við vildum að myndbandið fangaði gleðistemninguna í laginu og því kom upp þessi hugmynd að fá fullt af andlitum, vinum okkar og samstarfsfólki til að koma og hjálpa okkur við að koma gleðinni til skila. Þess má geta að nánast allir í myndbandinu hafa mikla sönghæfileika sem er eiginlega pínu fyndið svona eftir á að hyggja. Þetta eru meðal annars söngnemendur mínir bæði úr Kvikmyndaskólanum og úr söngskólanum mínum sem koma þarna fram,“ segir Þórunn Erna.
Árni Filippusson tökumaður aðstoðaði við tökur og Jakob Gabríel Þórhallsson sá um klippingu og eftirvinnslu. „Hann hefur til að mynda komið að myndbandinu við Eurovision framlagið okkar árið 2015 Unbroken með Maríu Ólafs sem og textamyndböndin við lag Frikka Dórs, Fröken Reykjavík, fyrir Glowie “ segir Aron.