Innlent

Brugðist við neyðarástandi með því að útskrifa sjúklinga

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Yfirfullt er á bráðadeildum Landspítalans.
Yfirfullt er á bráðadeildum Landspítalans. vísir/vilhelm
Viðbúnaður á Landspítalanum er kominn á hæsta stig vegna álags, flensufaralds og veirusýkinga. Rétt fyrir hádegi var tekinn stöðufundur á Landspítalanum, enda vitað að álagið geti aukist yfir helgina.

„Staðan er áfram mjög þung á spítalanum. Það var fullt hér fyrir og margir sjúklingar bíða eftir öðrum úrræðum, hjúkrunarheimilum og endurhæfingu. Svo er flensan óvenju slæm og aðrar veirupestir, RS og fleira, og fólk verður mjög veikt af þessum veirupestum og ennþá stígandi í því. Þannig að spítalinn er yfirfullur og svipað ástand og síðasta daga,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Landspítalans.

Reynt verður að bregðast við stöðunni með því að fara yfir sjúklinga sem liggja á legudeildum og athugað hverjir geta farið heim. Það er gert til að hægt sé að flytja sjúklinga af bráðadeildum yfir á legudeildir og skapa pláss fyrir bráðatilvik.

„Það sem er líka erfitt er að það er skortur á starfsfólki, fyrst og fremst hjúkrunarfræðingum. Ofan í þessa stöðu eru líka mikil veikindi á starfsfólki. Því er erfitt um vik að opna auka pláss. Við bregðumst við því með því að reyna að flýta útskriftum. Það eru þau úrræði sem við höfum," segir Hlíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×