Innlent

Afhentu Færeyingum tæpar sex milljónir

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Mikið fárviðri gekk yfir Færeyjar um síðustu jól og olli miklu tjóni. Í dag voru björgunarsveitum Færeyja færðir fjármunir til að bæta fyrir alls kyns tæki og tól sem eyðilögðust í óveðrinu.

Söfnunin stóð yfir í tæpar þrjár vikur og söfnuðust 5,8 milljónir. Tvær konur sem héldu utan um söfnunina afhentu gjöfina en söfnunin fór af stað eftir ákall á facebooksíðunni Færeyingar og Íslendingar eru frændur.

„Við ruddum veginn fyrir almenna Íslendinga sem vildu leggja sitt af mörkum," segir Valdís Steinarsdóttir, önnur forsvarskvenna söfnunarinnar. Hin, Rakel Sigurgeirsdóttir, segir engin tengsl við Færeyja vera orsök söfnunarinnar, þeim þyki bara vænt um þessa frændþjóð okkar.

„Mér þykir ákaflega vænt um Færeyinga fyrir það sem þeir hafa gert fyrir okkur. Alltaf verið viðbúnir á neyðarstundu og stóðu með okkur í fótboltanum í sumar," segir hún.

Við sama tækifæri voru undirritaðar viljayfirlýsingar um samstarf. Annars vegar Rauða krossins í báðum löndum og hins vegar Landsbjargar. Regin Jespersen, formaður Landsbjargarfélaga í Færeyjum, segir alltaf hafa verið gott samstarf en nú verði það eflt enn frekar.

„Samstarfið mun snúa að þjálfun, æfingum og jafnvel kaupa búnað saman. Einnig ef það verður stórslys á Íslandi getur mannskapur komið frá Færeyjum og öfugt. Það þykir okkur afar vænt um," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×