Viðskipti innlent

Arctic Adventures og Extreme Iceland sameinast

atli ísleifsson skrifar
Fyrirtækin bjóða upp á ýmsar afþreyingarferðir.
Fyrirtækin bjóða upp á ýmsar afþreyingarferðir. arctic adventures
Samkomulag hefur náðst um sameiningu Arctic Adventures hf. og Extreme Iceland ehf.

Í tilkynningu frá Arctic Adventurs segir að viðskiptin séu framkvæmd á þann veg að Arctic Adventures kaupi Extreme Iceland og greiðir kaupverðið hlutum í Arctic Adventures. Þannig verða hluthafar Extreme Iceland hluthafar í sameinuðu félagi.

„Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar hf. hefur verið milligönguaðili í viðskiptunum.  Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á báðum félögum.

Arctic Adventures og Extreme Iceland starfa á  afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar. Félögin hafa vaxið mikið síðustu ár og hefur rekstur þeirra gengið vel. Ljóst er að sameinað fyrirtæki verður öflugt á sínu sviði og mun geta boðið ferðamönnum upp á fjölbreytta afþreyingarmöguleika.

Afþreying sem hluti af ferðaþjónustu er í vexti um allan heim og eru íslensk afþreyingarfyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni við að draga viðskiptavini til sín. 

Eigendur fyrirtækjanna telja því mikilvægt að styrkja þau til að takast á  við þessa samkeppni og hafa í því skyni ákveðið að sameina krafta Arctic Adventures og Extreme Iceland.

Samanlögð velta fyrirtækjanna árið 2016 er um fimm milljarðar og hjá þeim starfa um 250 starfsmenn,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×