Innlent

Banaslysið á Reykjanesi: Talið að brennisteinsvetnisgas hafi komist í húsnæðið

atli ísleifsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu á svæðinu.
Frá aðgerðum lögreglu á svæðinu. Vísir/Sindri
Talið er að brennisteinsvetnisgas hafi komist í húsnæðið þar sem einn maður lést og annar komst í bráða hættu í húsnæði Háteigs við Reykjanesvirkjun í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Orku.

Í tilkynningunni segir að fyrstu aðgerðir HS Orku í dag hafi beint að því að tryggja öryggi á svæðinu þar sem fjögur fyrirtæki starfa og aðstoða opinbera aðila við frumrannsókn. Segir að vel hafi gengið að tryggja öryggi á svæðinu.

„Rannsókn og aðgerðir í dag hafa miðast við að gastegundir hafi borist úr jarðhitaholu í híbýli mannanna. Aðgerðir voru þannig alfarið bundnar við lokað vatnsveitukerfi á athafnasvæði Reykjanesvirkjunar. Það vatnsveitukerfi er ótengt og alveg óháð vatnsveitu til almennings á Suðurnesjum.

HS Orka þakkar öllum þeim aðilum sem komu að aðgerðum í dag og mun starfa náið þeim opinberu aðilum sem fara með rannsókn málsins. Hún mun leiða fram mikilvægar upplýsingar og varpa ljósi á hvað nákvæmlega olli slysinu.

Hugur starfsmanna HS Orku er hjá aðstandendum og samstarfsmönnum hins látna,“ segir í tilkynningunni, en hinn látni var starfsmaður Háteigs.

Fyrstu fregnir af málinu sögðu frá því að sterk og annarleg lykt væri í húsnæði fyrirtækisins en í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum kom fram að gas úr borholu mun hafa farið inn á staðbundna vatnsveitu.

Fyrirtækið er ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum, Stolt Farm Seafood og fiskþurrkuninni Haustak, á svæðinu við Reykjanesvirkjun sem er í eigu HS Orku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×