Innlent

Banaslys á Reykjanesi: Gas úr borholu mun hafa farið inn á staðbundna vatnsveitu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu á svæðinu.
Frá aðgerðum lögreglu á svæðinu. Vísir/Sindri
Í morgun klukkan 7:15 barst lögreglu á Suðurnesjum tilkynning um meðvitundarlausan mann á vinnustað á Reykjanesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum en þar segir að lífgunartilraunir hafi ekki borið árangur og að maðurinn hafi verið úrskurðaður látinn.

Komið hefur í ljós að gas úr borholu mun hafa farið inn á staðbundna vatnsveitu.

Verið er að ljúka nauðsynlegum hreinsunarstörfum og engin hætta er á ferðum varðandi almenning. Vinnusvæðið umhverfis slysstað var rýmt og stendur sú rýming enn. Ekki er lokað fyrir almenna umferð en í tilkynningunni kemur fram að neysluvatn til almennings á Suðurnesjum er í góðu lagi.

Vinnueftirlit og heilbrigðiseftirlit ásamt lögreglu rannsaka málsatvik. Sú rannsókn stendur enn og er ekki unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Maðurinn sem lést var starfsmaður fiskvinnslufyrirtækisins Háteigs. Annar maður var fluttur á sjúkrahús eftir slysið.

Svæðið sem um ræðir er merkt með rauðum punkti á kortinu.Loftmyndir ehf.
Fiskvinnslufyrirtækið er í námundan við Reykjanesvirkjun en tvö önnur fyrirtæki, fiskþurrkunin Haustak og fiskeldisfyrirtækið Stolt Farm Seafood, eru þar einnig skammt frá Háteigi.

Það var á ellefta tímanum í morgun sem fulltrúar frá Vinnueftirlitinu mættu í fyrirtækin þrjú og lokuðu þeim tímabundið á meðan rannsókn á banaslysinu stendur yfir.

Maðurinn sem lést og sá sem var fluttur á sjúkrahús dvöldu í svefnskála sem tengdur er fiskvinnslufyrirtækinu Háteigi.

Hjá Haustaki starfa um 35 manns, 12 - 15 manns hjá Háteigi og um 30 hjá Stolt Farm Seafood. Allir hafa þeir nú lagt niður störf á meðan rannsókn banaslyssins stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×