Enski boltinn

„Síðasti séns fyrir Arsenal“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger þarf á sigri að halda á morgun.
Arsene Wenger þarf á sigri að halda á morgun. vísir/getty
Arsenal þarf ekkert minna en sigur á móti toppliði Chelsea þegar Lundúnarliðin mætast í stórleik helgarinnar í enska boltanum í hádeginu á morgun. Allt minna en sigur verður til þess að liðið á ekki séns að vinna enska meistaratitilinn. Þetta er mat Robert Pires, fyrrverandi leikmanns liðsins.

Arsenal er í þriðja sæti deildarinnar, níu stigum á eftir toppliði Chelsea, eftir óvænt 2-1 tap gegn Watford á þriðjudaginn og nú þurfa lærisveinar Wengers að fá þrjú stig til að minnka bilið niður í sex stig.

Pires, sem varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Arsenal og var hluti af Arsenal-liðinu sem vann deildina án þess að tapa leik árið 2004, telur að Alexis Sánchez og Mesut Özil séu lykilmennirnir þegar kemur að því að halda titilvonum Arsenal á lífi.

„Þetta er síðasti séns fyrir Arsenal. Þetta er úrslitaleikur um enska meistaratitilinn. Ef Chelsea vinnur Arsenal er deildarkeppninni lokið,“ segir Pires og vill þá meina að Chelsea verði búið að svo gott sem tryggja sér titilinn.

„Chelsea er búið að spila vel í fjóra mánuði en ef Arsenal vinnur Chelsea á Brúnni er allt hægt. Arsenal-liðið verður einbeittara og þegar ég sé Sáncez og Özil spila þá veit ég að þeir geta gert eitthvað sérstakt á Stamford Bridge,“ segir Robert Pires.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×