Lífið

Febrúarspá Siggu Kling – Nautið: Auðvitað getur þú fengið kvíðakast

Sigga Kling skrifar
Elsku hjartans Nautið mitt, þolinmæðin er kannski ekki þitt sterkasta afl, þú átt það til núna og á næstunni að finnast hlutirnir ekki gerast á þeim hraða sem og þú vilt. Þú virðist ekki alveg fá þau svör sem þú ert að bíða eftir og þú skalt segja við þig, elskan mín: „ég er svo rosalega þolinmótt naut, þetta er alveg að koma.“

Eins og ég segi þá eru orð álög og um leið og þú ákveður að láta lífið fljóta og treysta því að þú þurfir ekki að stjórna öllu þá reddast málin. Þegar þetta er komið muntu sjá sólina í öðrum lit. Þetta er alveg magnað tímabil sem er bæði búið að vera og heldur áfram fram á sumar. Þú ferð inn í tímabil sem gefur þér svo mikið öryggi og svo sannarlega áttu þar heima. Þú átt eftir að brosa meira og líða betur en þér hefur gert lengi. Streitan hefur átt það til að bíta þig í hælinn.

Nú er tíminn til að gleyma hinu gamla og hrista ný spil fram úr erminni. Ljós ástarinnar hefur alveg verið á vegi þínum. En ég er ekki svo viss að þið sem eruð á lausu hafið tekið eftir því, þið nautin eruð svo upptekin af því að allt sé akkúrat, svo að það er mikilvægt að sjá að það þarf auðmýkt í ástina. Júpíter, pláneta velgengninnar, er sterkur yfir þínu merki, svo að öll plön um að gera betur við sig í lífinu gætu virkað svo miklu miklu betur en þú hefur þorað að vona.

Velgengni, friður og öryggi, hversu flott orð eru það ekki inn í febrúarmánuð. Auðvitað getur þú fengið kvíðakast, þú átt alltaf eftir að finna þér eitthvað til að hafa áhyggjur af. Svo að þegar þú skoðar það betur sérðu samt að þetta er tímabilið sem þú varst að óska þér um áramótin.

Það kemur líka fyrir að maður þarf að fórna smá til að sigra og fá hamingjuna með sér í lið. Ekki sjá eftir því sem er farið, því að það var parturinn af því að gera þig að svona stórkostlegri manneskju.

Mottó – Þú færð þínar óskir framreiddar á silfurfati

Fræg Naut: Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska knattspyrnulandsliðsins, Hannes Þór Halldórsson markvörður, Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður, Svali Kaldalóns fjölmiðlamógúll, Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, rithöfundur og latikokkur, Ellý Ármanns fjölmiðlakona, Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri, Valtýr Björn Valtýsson íþróttafréttamaður, Ólafur Ragnar Grímsson forseti, Álfheiður Ingadóttir þingkona, Halldór Laxness, rithöfundur og skáld, Rúnar Freyr Gíslason leikari, Garðar Thor Cortes söngvari, Helga Möller söngkona, Katrín Tanja Davíðsdóttir crossfit-meistari, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona, Pétur Jóhann Sigfússon, Addi Exos dj-snillingur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.