Enski boltinn

Crouch elstur til að skora 100 mörk og er ekki hættur: "Get spilað til fertugs“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Peter Crouch, hinn stóri og bráðskemmtilegi framherji Stoke, skoraði sitt 100. mark í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi þegar liðið gerði jafntefli við Everton á heimavelli, 1-1.

Eftir að vera fastur í 96 mörkum um langa hríð er Crouch nú búinn að skora fjögur mörk í síðustu fimm leikjum sínum og varð í gær 26. leikmaðurinn til að skora 100 mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Crouch er sá elsti til að afreka þetta en hann var 36 ára og tveggja daga gamall þegar hann skoraði í gærkvöldi. Þrátt fyrir að vera að nálgast endalok ferilsins er framherjinn hvergi nærri hættur.

„Ég er mjög ánægður. Auðvitað er ég feginn að hafa skorað þetta svona snemma í leiknum. Ég var ekki lengi fastur í 99 mörkum þannig það var gott að koma þessu frá. Ég er stoltur af þessu afreki þegar ég sé listann yfir þá sem hafa afrekað þetta. Það eru forréttindi fyrir mig að vera í þessum hópi,“ sagði Crouch við Sky Sports eftir leikinn.

„Ég er ánægður með að hafa spilað svona lengi í ensku úrvalsdeildinni. Mér líður vel, ég er í góðu formi og get haft áhrif á leiki í þessari deild. Vonandi held ég bara áfram að skora mörk.“

„Ég skrifaði nýverið undir nýjan samning þannig stjórinn er greinilega á því að ég geti spilað. Ég veit að ég get spilað í þessari deild í nokkur ár í viðbót. Ég treysti aldrei á hraðann. Ég veit að stjórinn [Mark Hughes] spilaði þar til hann var um fertugt og ég held að ég geti gert það sama,“ sagði Peter Crouch.

Hér að ofan má sjá tímamóta markið hjá Crouch og vélmennadansinn sem hann bauð að sjálfsögðu upp á í tilefni dagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×