Enski boltinn

Sjötta jafntefli Man. United á Old Trafford í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United náði ekki að skora í markalausu jafntefli á móti neðsta liði deildarinnar á Old Trafford í kvöld og stigið nægði Hull City til að komast af botninum.

Eldin Jakupovic, markvörður Hull, varð í kvöld enn einn markvörður aðkomuliðs á Old Trafford sem á stórleik á þessu tímabili.

Manchester United átti með sigri möguleika á að komast aðeins tveimur stigum frá Liverpool sem situr eins og er í fjórða og síðasta sætinu sem hefur þátttökurétt í Meistaradeildinni.

Manchester United er hinsvegar hrokkið í jafnteflisgírinn í ensku úrvalsdeildinni eins og fyrr á tímabilinu en þetta var þriðja jafntefli liðsins í röð í deildinni.

Manchester United hefur er nú með fleiri jafntefli (6) en sigra (5) í heimaleikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Manchester United fékk vissulega færi til að skora sigurmarkið en það fengu líka gestirnir í Hull því Lazar Markovic átti skot í markstöngina fjórum mínútum fyrir leikslok.

Eldin Jakupovic, markvörður Hull, hafði varið frábærlega frá Juan Mata í upplögðu tækifæri á 73. mínútu. Paul Pogba komst næst því að skora fyrir Manchester United í fyrri hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×