Enski boltinn

Swarbrick kippti sér lítið upp við trylling Klopps: "Ég er hrifinn af ástríðunni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, bað fjórða dómarann Neil Swarbrick afsökunar á að viðbrögðum sínum eftir að Simon Mignolet varði vítaspyrnu Diegos Costa í leik Liverpool og Chelsea á Anfield í gær.

Á 77. mínútu brá Joel Matip fæti fyrir Costa sem féll við. Mark Clattenburg, dómari leiksins, var ekki í neinum vafa og benti á punktinn. Costa tók spyrnuna sjálfur en Mignolet varði.

Eftir vörsluna gekk Klopp að Swarbrick, fjórða dómara leiksins, og öskraði framan í hann „enginn getur sigrað okkur“ áður en hann var dreginn í burtu.

Eftir leikinn, sem lyktaði með 1-1 jafntefli, baðst Klopp afsökunar á hegðun sinni og greindi jafnframt frá því að Swarbrick hefði ekki gert mikið úr atvikinu.

„Afsakið, ég vil segja eitt sem enginn hefur spurt mig að. Það er þetta með fjórða dómarann. Ég þekki þetta frá Þýskalandi, það eru skrifaðar fréttir út frá varalestri eða einhverju slíku. Það sem ég sagði var „enginn getur sigrað okkur“. Það er augljóslega ekki satt. En mér leið þannig á þessu augnabliki,“ sagði Klopp á blaðamannafundi eftir leik.

„Ég bað hann [Swarbrick] afsökunar. Hann sagði „ekkert mál, ég er hrifinn af ástríðunni þinni“. Ég hef aldrei heyrt slíkt frá fjórða dómara áður svo mér fannst að þið ættuð að vita af þessu,“ bætti Þjóðverjinn við.

Liverpool er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 46 stig, 10 stigum á eftir toppliði Chelsea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×