Enski boltinn

Turf Moor eða Turf múr: Aðeins Chelsea og Tottenham fengið fleiri stig á heimavelli en Burnley

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þegar meirihluta liðanna í ensku úrvalsdeildinni er búinn að spila 23 leiki eru nýliðar Burnley í 9. sæti deildarinnar. Jóhann Berg Guðmundsson og félagar eru með 29 stig, 10 stigum frá fallsæti.

Lykilinn að þessu góða gengi Burnley í vetur er heimavöllurinn, Turf Moor. Múrvirkið sem Jói Berg og félagar eru búnir að smíða þar er svo sterkt að nær ekkert lið kemst í gegn. Þar hefur Burnley náð í 28 af 29 stigum sínum. Ótrúleg tölfræði.

Burnley hefur unnið níu af 13 heimaleikjum sínum á tímabilinu, gert eitt jafntefli og tapað þremur leikjum. Í gær vann liðið 1-0 sigur á Leicester City, þökk sé sigurmarki Sams Vokes.

Aðeins Chelsea (30 stig) og Tottenham (29 stig) hafa náð í fleiri stig á heimavelli en Burnley á tímabilinu.

Það er líka eins gott fyrir Burnley að heimavöllurinn sé sterkur því liðinu virðist fyrirmunað að vinna leiki, eða fá stig, á útivelli.

Burnley hefur aðeins fengið eitt stig í 10 útileikjum, fæst allra í deildinni. Þetta eina stig fékk Burnley á Old Trafford 29. október í fyrra.

Næsti leikur Burnley er gegn Watford á útivelli á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×