Viðskipti innlent

Sigríður fer frá Ikea til Samtaka iðnaðarins

Haraldur Guðmundsson skrifar
Samtök iðnaðarins (SI) hafa ráðið Sigríði Heimisdóttur í starf sviðsstjóra hugverkasviðs SI. Samkvæmt tilkynningu samtakanna hefur Sigríður störf 1. apríl næstkomandi. Tekur hún við starfinu af Elínrós Líndal sem hefur gegnt því síðustu tvö ár.

„Sigríður Heimisdóttir hefur undanfarin 5 ár starfað hjá IKEA í Svíþjóð þar sem hún hefur gegnt starfi þróunarstjóra smávöru í 3 ár og síðar verkefnastjóri sértækra nýþróunarverkefna.  Auk þess var hún verkefnastjóri alls samstarfs við hönnunar og nýsköpunarstofnanir á vegum höfuðstöðva IKEA.  Hún stofnaði hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækið Hugvit&Hönnun árið 1995 og starfaði þá fyrir mörg íslensk og alþjóðleg fyrirtæki, þar á meðal IKEA. Frá árinu 2000 til 2008 starfaði hún sem vöruhönnuður hjá IKEA þar til hún hóf störf sem hönnunarstjóri hjá Fritz Hansen í Danmörku. Árið 2010 stofnaði hún Labland, hönnunarstofu í Malmö í Svíþjóð sem vann fyrir mörg alþjóðleg fyrirtæki,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir ánægjulegt að fá Sigríði til liðs við samtökin. „Sigríður hefur mikla reynslu af stjórnun í alþjóðlegu umhverfi sem er veruleiki margra okkar aðildarfyrirtækja. Hún kemur að auki með reynslu og þekkingu á sviði vöruhönnunar og nýsköpunar sem eru þættir sem hafa vaxandi vægi í öllum iðnaði. Á hugverkasviði SI hefur verið lögð áhersla á að við Íslendingar sjáum tækifærin í breyttri neysluhegðun og áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar. Sigríður hefur leiðtogahæfileika og kraft til að leiða það verkefni.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×