Enski boltinn

Liverpool er kannski að hiksta en það er eina ósigraða liðið í baráttu sex efstu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp þarf að rífa sína menn í gang í febrúar en það gengur vel í stórleikjunum.
Jürgen Klopp þarf að rífa sína menn í gang í febrúar en það gengur vel í stórleikjunum. vísir/getty
Liverpool og Chelsea skildu jöfn, 1-1, í stórleik 23. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í gær. David Luiz kom Chelsea yfir með fallegu marki úr aukaspyrnu en Georginio Wijnaldum jafnaði metin fyrir Liverpool í seinni hálfleik.

Ekkert lið fagnar væntanlega meira að janúar sé búinn en Liverpool en fyrstu vikur nýs árs voru liðinu ekki gæfuríkar. Liðið vann aðeins einn leik af níu í öllum keppnum og er úr leik í enska bikarnum og deildabikarnum.

Liverpool vann ekki leik í ensku úrvalsdeildinni í janúar í fjórum tilraunum og safnaði aðeins þremur stigum af tólf mögulegum. Það er fallið niður í fjórða sæti deildarinnar en heldur því eftir umferðina nema City vinni níu marka sigur í kvöld.

Þó lærisveinar Jürgens Klopps séu að hiksta þessar vikurnar þurfti ekkert að koma á óvart að liðið tapaði ekki í gær því Liverpool er ólseigt í stórleikjunum. Það er eina ósigraða liðið í innbyrðis viðureignum efstu sex liða ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool er búið að spila sjö af tíu leikjum sínum á móti hinum fimm liðunum sem eru í baráttunni um titilinn og Meistaradeildarsæti. Það hefur unnið fjóra þeirra og gert þrjú jafntefli.

Liverpool byrjaði þessa vegferð á 4-3 sigri gegn Arsenal í byrjun leiktíðar en það er svo búið að safna fjórum stigum á móti Chelsea í tveimur leikjum og tveimur stigum á móti Manchester United með tveimur jafnteflum.

Liverpool vann Manchester City í stórleik gamlársdags og gerði 1-1 jafntefli við Tottenham þegar liðin mættust í Lundúnum. Það á eftir að mæta City, Tottenham og Arsenal aftur.

Liverpool er búið að safna þrettán stigum af 21 í þessum sjö innbyrðis leikjum á móti toppliðunum og skora tíu mörk og fá á sig sjö.

Það eru frekar leikirnir á móti minni liðunum sem eru að fara illa með Liverpool en á síðustu tveimur mánuðum er það búið að gera jafntefli við Sunderland og tapa fyrir Swansea og Bournemouth. Liverpool er nú tíu stigum á eftir toppliði Chelsea þegar fimmtán leikir eru eftir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×