Viðskipti innlent

Ársafkoma Regins í samræmi við væntingar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Helgi S. Gunnlaugsson, forstjóri Regins.
Helgi S. Gunnlaugsson, forstjóri Regins. Vísir/Valli
Afkoma Regins á árinu 2016 var góð og í samræmi við væntingar. Rekstrartekjur námu 6.643 m.kr.og þar af námu leigutekjur 6.111 m.kr. Leigutekjur hafa hækkað um 22% samanborið við árið 2015. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir

/ EBITDA var 4.377 m.kr. sem samsvarar 21% hækkun samanborið við árið 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Helga S. Gunnarssyni, forstjóra Regins.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustu og stöðugu tekjustreymi. Í lok árs 2016 átti Reginn 124 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var rúmlega 316 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er 96% miðað við tekjur.

Þá kemur fram að aldrei hefur verið skrifað undir leigusamninga um jafnmarga fermetra hjá félaginu og árið 2016, eða um 58.000 fermetra. Rúmlega helmingur þeirra samninga voru nýir leigusamningar, aðrir voru endurnýjun eldri samninga. Á árinu 2016 voru tvær byggingar teknar í notkun fyrir opinber fyrirtæki eftir gagngerar breytingar. Þetta voru Hlíðasmári 1 sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú tekið í notkun og Tjarnarvellir 11 sem Þjóðminjasafnið tók við undir varðveislu- og rannsóknarsetur um mitt ár 2016.

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og engar vísbendingar séu um annað en að áætlanir félagsins standist.

Á árinu 2017 verða áherslur félagsins áfram á styrkingu og vöxt eignasafnsins. Fyrir utan hefðbundin rekstrarmál verður unnið að endurskipulagningar og uppbyggingarverkefnum félagsins s.s. eftirfylgni með endurskipulagningu Smáralindar, uppbyggingu Hafnartorgs í miðbæ Reykjavíkur, uppbyggingu Alhliða íþróttahúss við Egilshöll ásamt fjölda nýrra leiguverkefna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×