Erlent

Staða ráðgjafans veldur Trump áhyggjum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, ásamt Michael Flynn og Steve Bannon.
Donald Trump, ásamt Michael Flynn og Steve Bannon. Vísir/EPA
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, íhugar nú stöðu þjóðaröyggisráðgjafa síns, Michael Flynn og veldur hún honum áhyggjum, samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu.

Flynn er um þessar mundir í vandræðum vegna fregna um að hann hafi rætt við rússneskan embættismann áður en Trump var tekinn við embætti en þeir eiga að hafa rætt um viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn Rússlandi.

Flynn þvertók fyrst um sinn fyrir að hafa rætt um þetta tiltekna mál við embættismanninn, en dró svo í land og sagðist ekki vera viss. Leyniþjónusta Bandaríkjanna rannsakar nú málið en óbreyttir borgarar mega ekki fara með utanríkismál landsins samkvæmt lögum.

Sjá einnig: Þjóðaröryggisráðgjafi Trump undir pressu

Flynn sendi frá sér afsökunarbeiðni, þar sem hann baðst afsökunar á að hafa afvegaleitt bandaríska ráðamenn og beindi hann afsökunarbeiðni sinni sérstaklega til varaforsetans Mike Pence, sem hafði áður varið hann í sjónvarpsviðtölum.

Trump hefur enn ekki tjáð sig með opinberum hætti um stöðu Flynn í starfsmannahóp sínum en athygli vekur þó að hann hefur neitað að styðja ráðgjafann sinn á opinberum vettvangi.

Að sögn fjölmiðla vestanhafs hefur Trump miklar áhyggjur af stöðunni og er það ein meginástæða þess að hann hefur enn ekki tjáð sig um málið. Ljóst er að þetta kemur sér afar illa fyrir forsetann, sem sakaður hefur verið um linkind og vinaþel í garð Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×