Viðskipti innlent

ESB styrkir byggingu þriggja vetnisstöðva Skeljungs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skeljungur fær styrk frá ESB.
Skeljungur fær styrk frá ESB. Vísir/GVA
Skeljungur mun á árunum 2018 til 2019 opna þrjár vetnisstöðvar fyrir bifreiðaeigendur. Evrópusambandið styrkir verkefnið um 2,7 milljónir evra, rúmlega 300 milljónir króna.

Nemur styrkur Evrópusambandsins um 70 prósent af heildarkostnaði vetnistöðvanna þriggja. Áður hafði fengist styrkur fyrir einni vetnisstöð en nú hefur Evrópusambandið staðfest styrk vegna tveggja stöðva til viðbótar.

Að auki hefur Skeljungur fengið 20 milljónir í styrk frá Orkusjóði til uppbyggingar fjögurra hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla. Sú fjárhæð nemur um 50 prósent af kostnaði við byggingu þeirra stöðva. Verða þær opnaðar á árunum 2017-2018.

Í tilkynningu frá Skeljungi til kauphallar segir að með uppbyggingu vetnistöðvanna taki fyrirtækið ný skref og sé verkefnið fyrsta skrefið í að mynda innviði fyrir notkun vetnisbifreiða.

Vetnisverkefnið er samstarfsverkefni með norska fyrirtækinu Nel ASA í gegnum Íslenska vetnisfélagið ehf. Það félag mun verða 90 prósent í eigu Skeljungs og tíu prósent í eigu Nel ASA, sem er jafnframt framleiðandi stöðvanna í verkefninu.

„Markmiðið með fjölorkustöðvunum er að byggja upp net innviða fyrir vistvænar bifreiðar. Styður vetnisverkefnið við þetta markmið, sem og við markmið um aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Það er ætlun Skeljungs að vera leiðandi í innleiðingu vistvænna orkugjafa fyrir bifreiðar,“ er haft eftir segir Valgeiri M. Baldurssyni, forstjóra Skeljungs í tilkynningu frá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×