Erlent

Bandarískir þingmenn hafa áhyggjur af andlegri heilsu Trump

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Al Franken, í viðtali við Bill Maher.
Al Franken, í viðtali við Bill Maher. Vísir/Skjáskot
Þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeild bandaríska þingsins, hafa sumir hverjir áhyggjur af andlegri líðan Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Þetta segir Al Franken, þingmaður Demókrataflokksins, frá Minnesota.

Upplýsingarnar komu fram í viðtali við þingmanninn í sjónvarpsþættinum Real Time með Bill Maher, á föstudag, þar sem hann var spurður út í það hvernig þingmenn tala um forsetann, á bakvið luktar dyr.

„Það er að sjálfsögðu mjög mismunandi hvað fólk segir, sumir lýsa til að mynda áhyggjum af andlegri líðan hans,“ sagði Franken, sem benti á að forsetinn er gjarn á að segja ósatt.

„Við höfum öll þennan grun, sem byggir á því að hann lýgur virkilega mikið, hann lætur stöðugt út úr sér hluti, sem eru bara ósannir,“ sagði Franken, sem tók staðhæfingar Trump sem dæmi, þar sem hann fullyrðir að kosningasvindl hefði átt sér stað í nýafstöðum forsetakosningum, þrátt fyrir að engin gögn bendi til þess.

„Ég hef ekki heyrt mikið af góðum hlutum, en ég hef heyrt að fólk hefur áhyggjur af skapi forsetans og andlegri heilsu hans.“

Þá sagði Franken jafnframt að hann hefði látið í sér heyra ef hann hefði verið viðstaddur þegar Trump sagði í síðustu viku við nokkra þingmenn Demókrata flokksins að „Pocahontas er núna andlit flokksins ykkar,“ en þar átti hann við þingkonuna Elizabeth Warren.

„Ég hefði sagt við hann: „Herra forseti, með fullri virðingu, þá er þetta ekki í lagi, þessi ummæli eru rasísk, vinsamlegast hættu þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×