Viðskipti innlent

Ríkið stefnir að því að selja allan eignarhlut í Íslandsbanka og Arion banka

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki verður uppfærð.
Eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki verður uppfærð. Vísir
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur útbúið drög að uppfærðri eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki og óskar eftir umsögnum um stefnuna.

Samkvæmt umræddum drögum er stefnt að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Arion banka, „þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi.“

Hvað varðar Landsbankann, að þá er stefnt að því að ríkissjóður muni eiga verulegan eignarhlut, 34-40 prósent, til langframa, í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess.

Þá er stefnt að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands um leið og hægt er, „enda ekki markmið ríkisins að vera eigandi sparisjóðsins til langframa.“

Í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á eignarhluti í, og Bankasýsla ríkisins fer með samkvæmt lögum, hafi verið sett fram árið 2009. Hún hafi endurspeglað stöðuna eftir endurreisn fjármálakerfisins og aðstæður í ríkisfjármálum og á fjármálamarkaði á þeim tíma. Staðan sé nú gjörbreytt til hins betra.

„Einnig hefur eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum tekið grundvallarbreytingum og á ríkið nú meirihluta bankakerfisins. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gefið út nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti ríkisfyrirtækja.“ Því sé tímabært að uppfæra eigendastefnuna.

Samkvæmt drögunum að endurskoðaðri eigandastefnu falla jafnframt niður ýmsar áherslur sem mótaðar voru í kjölfar endurreisnar fjármálakerfisins, þess í stað verði lögð áhersla á að fjármálafyrirtæki veiti viðskiptavinum skilvirka þjónustu og tryggi ásættanlega arðsemi. Jafnframt er skerpt á ákvæðum um stjórnarhætti, upplýsingagjöf, gagnsæi og fagleg vinnubrögð og undirstrikuð sú skylda stjórna „að fara að ákvæðum eigandastefnunnar og upplýsa eiganda í þeim tilvikum sem slíkt er ekki talið hægt eða ef stjórn verður þess áskynja að ekki hefur verið farið eftir þeim.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×