Enski boltinn

Guardiola: Claudio Bravo er einn af bestu markvörðum heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Bravo.
Claudio Bravo. Vísir/Getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, talar vel um markvörðinn Claudio Bravo þrátt fyrir að hafa hent honum út úr liðinu fyrir þremur leikjum síðan.

Claudio Bravo hefur fengið á sig mikla gagnrýni síðan að hann kom til Manchester City frá Barcelona í sumar. Tölfræðin er ekki að hjálpa honum og frammistaðan hvað eftir annað ósannfærandi.

Pep Guardiola segir þrátt fyrir þetta allt saman að álit hans á hinum 33 ára gamla Claudio Bravo hafi ekkert breyst.  

„Mín skoðun á Claudio er sú sama og hún var áður. Hann er toppleikmaður og toppmarkvörður. Hann er einn af best markvörðum heims. Langur og glæsilegur ferill hans talar sínu máli,“ sagði Pep Guardiola við Guardian.

„Fótboltinn hér er öðruvísi og mjög sérstakur. Það er meira um fyrirgjafir og sérstaka hluti en að sjálfsögðu er hann frábær markvörður. Það er enginn vafi í mínum huga,“ sagði Guardiola.

Guardiola segist ekkert sjá eftir því að hafa náð í Claudio Bravo eða að hafa leyft Joe Hart að fara á láni til ítalska félagsins Torino.

Willy Caballero hefur staðið í marki Manchester City í undanförnum þremur leikjum og hann hefur aðeins þurft að sækja boltann einu sinni í markið í þeim.

Guardiola segist ekki vera búinn að velja byrjunarliðsmarkvörðinn í næsta leik. „Ég veit ekki hver byrjar. Ég mun ákveða það á leikdegi,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×