Enski boltinn

Alfreð var hetjan þegar Marco Silva mætti síðast á Emirates og vann sögulegan sigur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði sögulegt sigurmar á Emirates.
Alfreð Finnbogason skoraði sögulegt sigurmar á Emirates. vísir/epa
Hádegisleikurinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á morgun er viðureign Arsenal og Hull sem fram fer á Emirates-vellinum í Lundúnum. Skyttur Arsene Wengers þurfa sárlega á sigri að halda eftir tvö töp í röð en Liverpool og Manchester United anda ofan í hálsmálið á liðinu í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Hull lyfti sér af botni úrvalsdeildarinnar í síðustu umferð þegar liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Liverpool á útivelli, 2-0. Fyrir það gerði Hull markalaust jafntefli við Manchester United en það er aðeins búið að tapa einum leik af síðustu þremur og safna fjórum stigum af níu mögulegum.

Arsenal er svo sannarlega sigurstranglegra fyrir leikinn á morgun en það var Olympiacos líka þegar gríska liðið mætti í heimsókn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar haustið 2015. Þá unnu grísku meistararnir, 3-2, með marki Alfreðs Finnbogasonar.

Þjálfari Olympiacos í þeim leik var Portúgalinn Marco Silva sem tók við Hull fyrr á leiktíðinni. Hann varð fyrir einu og hálfu ári síðan fyrsti þjálfarinn sem vann leik með Olympiacos á enskri grundu og það á móti Arsenal á útivelli.

Markið sem Alfreð skoraði í þessum fræga leik var aðeins annað markið sem Íslendingur skorar í Meistaradeildinni en áður hafði Eiður Smári Guðjohnsen skorað sjö mörk fyrir Chelsea og Barcelona.

Alexis Sánchez jafnaði metin fyrir Arsenal í 2-2 á 65. mínútu en Alfreð skoraði af stuttu færi mínútu síðar og tryggði Olympiacos þennan sögulega sigur. Silva getur ekki treyst á Alfreð á morgun en hann á góðar minningar frá síðustu heimsókn sinni á Emirates-völlinn.

Leikur Arsenal og Hull verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 12.30 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×