Enski boltinn

Klippa Carroll þótti betri en sporðdrekamark Giroud

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carroll var sáttur með verðlaunin.
Carroll var sáttur með verðlaunin. vísir/getty
Glæsileg klippa Andys Carroll, framherja West Ham, í leik gegn Crystal Palace var valið mark janúarmánaðar í ensku úrvalsdeildinni.

Carroll hafði m.a. betur í baráttu við Olivier Giroud, framherja Arsenal, sem skoraði magnað „sporðdrekamark“ í sigri á Crystal Palace.

Carroll hefur verið sjóðheitur að undanförnu og skorað fjögur mörk í síðustu fjórum deildarleikjum West Ham. Ekkert þeirra var fallegra en markið gegn Palace 14. janúar.

Carroll klippti þá boltann glæsilega á lofti upp í nærhornið eftir fyrirgjöf Michails Antonio. Wayne Hennessey, markvörður Palace, átti ekki möguleika á að verja skotið sem var nákvæmt og gríðarlega fast. West Ham vann leikinn 3-0.

Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem leikmaður West Ham skorar mark mánaðarins. Mark Dimitris Payet gegn Watford var valið það flottasta í október. Payet er reyndar horfinn á braut til Marseille eftir að hafa farið í fýlu hjá West Ham.

Öll mörkin sem voru tilnefnd í janúar má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×